Innleiðing rafrænna fylgiseðla með lyfjum mikilvægt hagsmunamál

Fjölmennt var á fundinum

Norðurlandaþjóðirnar telja mikinn ávinning í því að innleiða rafræna fylgiseðla með lyfjum og vinna að því sameiginlega gagnvart Evrópusambandinu. Horft er til þess að rafrænir fylgiseðlar verði mikilvægur liður í því að sporna við lyfjaskorti og auka öryggi sjúklinga. Um þetta var fjallað á fjölmennum fundi íslenskra og erlendra sérfræðinga í Reykjavík í vikunni sem haldinn var í tengslum við formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.

Tryggja þarf sjúklingum upplýsingar sem þeir skilja


Á fundinum voru meðal annars kynntar niðurstöður viðamikillar evrópskrar rannsóknar sem Evrópuráðið stóð fyrir að frumkvæði Íslands um kosti og galla þess að innleiða rafræna fylgiseðla. Í stuttu máli fela niðurstöðurnar í sér að lyfsalar, læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk telur vandkvæðum bundið að tryggja að sjúklingar sem ekki hafa tungumál viðkomandi lands að móðurmáli fái fullnægjandi upplýsingar um þau lyf sem þeir þurfa á að halda. Núverandi fyrirkomulag tryggi því ekki sem skyldi rétta og örugga notkun sjúklinga á lyfjum. Um 88% svarenda telja að með rafrænum fylgiseðlum megi betur tryggja sjúklingum aðgengi að upplýsingum sem þeir geta skilið.

Margvíslegir kostir við rafræna fylgiseðla

Norðurlandaþjóðirnar horfa meðal annars til þess að ef heimilt verður að nota rafræna fylgiseðla í stað prentaðra muni það auðvelda þeim sameiginleg lyfjainnkaup þar sem markaðurinn verður stærri og þar með áhugaverðari kostur fyrir lyfjafyrirtækin. Með því megi sporna við lyfjaskorti, tryggja þannig betur öryggi sjúklinga, jafnframt því að ná hagstæðara innkaupaverði og lækka þar með lyfjaverð.

Þá er með slíkum seðlum unnt að einfalda og bæta upplýsingagjöf til notenda. Þannig gætu sjúklingar fengið aðgang að fylgiseðlum (útprentuðum eða í snjalltækjum) á tungumáli sem hentar þeim og í leturstærð eftir þörfum.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir innleiðingu rafrænna fylgiseðla hafa marga augljósa kosti og ef vel er að málum staðið séu þeir til þess fallnir að tryggja betur öryggi sjúklinga.

Lyfjamál eru flókinn málaflokkur og regluverkið er umfangsmikið enda snúast örugg lyf og rétt notkun þeirra um líf og heilsu fólks. En það er líka mikilvægt að regluverkið taki breytingum í samræmi við þróun samfélagsins, tækninýjungar og breyttar þarfir almennings. Í fjölmenningarsamfélögum nútímans og tæknivæddum heimi er ég sannfærð um að innleiðing rafrænna fylgiseðla sé eðlileg og nauðsynleg þróun. Spurningin er ekki hvort, heldur hvenær þetta verður að veruleika“ segir Svandís.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila