Lýsingarhönnunin á Óðinstorgi verðlaunuð

Dario Gustavo Nunes Salazar lýsingarhönnuður

Lýsingarhönnunin á Óðinstorgi var verðlaunuð á Íslensku lýsingarverðlaununum í ár. Hönnuður lýsingarinnar er Dario Gustavo Nunes Salazar lýsingarhönnuður hjá Verkís og tók hann við viðurkenningunni við athöfn hjá Ljóstæknifélagi Íslands síðastliðinn fimmtudag.

Óðinstorg hlaut verðlaun fyrir lýsingu utanhúss en Gróðurhúsið í Hveragerði fékk verðlaun fyrir lýsingu innanhúss. Lýsingarhönnuður Gróðurhússins er Þórður Orri Pétursson.

Þetta þýðir að þessi tvö verkefni keppa fyrir Íslands hönd á Norrænu lýsingarverðlaununum sem veitt verða í Svíþjóð í haust.

Ljósgjafarnir felldir inn í landslag torgsins

Á Óðinstorgi er markmiðið að nota lýsingu til að gera

„umhverfið leikandi og eru ljósgjafarnir felldir inn í landslag torgsins; steypta bekk, handrið og stalla, sem á þann hátt verða götugögn í sjálfu sér,“ að  því er segir á vef Verkís.

Frá núverandi götustaurum stafar hlutlaus birta en frá nýjum ljósgjöfum kemur hlýrri birta, sem á þátt í að skerpa andstæður milli umferðar- og dvalarrýmis torgsins. Þá er ljósmengun og orkunotkun haldið í lágmarki með því að nota nákvæma og nútímalega ljóstækni.

Hönnun hins endurgerða Óðinstorgs var í höndum Balsalt arkitekta.

Óðinstorg var enn fremur tilnefnt til lýsingarverðlaunanna Darc Awards í febrúar 2021

Íslensku lýsingarverðlaunin eru verðlaun sem veita „frumlegum, skapandi og snjöllum hugmyndum sem eru útfærðar á framúrskarandi hátt viðurkenningu“ eins og segir á vef Ljóstæknifélags Íslands.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila