Magga Stína kjörin formaður Samtaka leigjenda

Margrét Kristín Blöndal nýkjörin formaður Samtaka leigjenda.

Margrét Kristín Blöndal, betur þekkt sem tónlistarkonan Magga Stína var í gærkvöld kjörin nýr formaður Samtaka leigjenda á aðalfundi samtakanna. Í tilkynningu segir að Margrét sé þakklát því trausti sem henni er sýnt með kjörinu og segir ástandið á leigumarkaðnum óhuggulegt “Það kom auðvitað vel fram á fundinum hvað leigjendur búa við mikið óréttlæti og óvissu. Það er hreint út sagt óhugnarlegt að heyra af aðbúnaði innflytjenda í láglaunastörfum sem greiða starfsmannaleigum stórar fjárhæðir fyrir rúmstæði, að hlusta á foreldra sem hafa þurft að flytja með börnin sín á milli skólahverfa og það er að lokum bara óþolandi að heyra af því gegndarlausa okri sem leigjendur búa við, algjörlega óvarðir af stjórnvöldum. Það er ekki hægt að láta það viðgangast og sitja áfram hljóður hjá. Hvergi í okkar heimshluta er það látið viðgangast að stór leigufélög geti gert út á húsnæðisvanda almennings eins og hér er látið óáreitt. Það var algerlega auðheyrt á fundinum áðan að leigjendur ætla sér ekki að sitja undir þessu lengur. Við erum risin upp og ætlum að berjast fyrir réttindum okkar og hagsmunum. Leigjendur þurfa í raun að berjast í bökkum fyrir lífi sínu. Þannig er staðan. Þegar fólk borgar orðið 2/3 af launum sínum í húsaleigu er það að berjast fyrir lífi sínu og barnanna sinna“,segir Margrét.

Á fjórða tug einstaklinga í stjórn félagsins

Óvenjumargir sitja í stjórn samtakanna og er óhætt að segja að stjórn samtakanna skipi fólk úr afar ólíkum áttum enda telur stjórnin 34 einstaklinga. Á fundinum kom fram að samtökin muni leita stuðnings verkalýðshreyfinga við störf sín enda telji félagar samtakanna húsnæðismálin vera eitt mikilvægasta hagsmunamál almennings.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila