Már Gunnarsson heldur til Bretlands í tónlistarháskóla – Kveður landsmenn með glæsilegri tónleikaröð

Már Gunnarsson tónlistarmaður, þáttastjórnandi á Útvarpi Sögu og einn fremsti sundmaður heims ætlar á næstu misserum að flytjast búferlum alla leið til Bretlands þar sem hann ætlar að hefja nám við virtan tónlistarháskóla. Í síðdegisútvarpinu í dag ræddi Arnþrúður Karlsdóttir við Má um tónlistina, sundið, lífið og tilveruna.

Nýlega tilkynnti Már að hann hyggðist hætta að keppa í sundi en sem fyrr segir er Már einn fremsti á því sviði og það var því erfið ákvörðun segir Már en hann hafi verið með mörg járn í eldinum og á endanum viljað gefa tónlistinni meiri tíma. Hann segir að Covid hafi að nokkru leyti spilað inn í þá ákvörðun því á þeim tíma sem Covid gekk yfir hafi sundlaugar hér verið lokaðar öllum en á meðan hafi mótherjarnir geta æft sund og því verið betur í stakk búnir fyrir keppni þegar Már tók þátt í Ólympíuleikunum í Japan.

En nú er Már að fara að söðla um og ákvað að slá tvær flugur í einu höggi og ætlar að kveðja Ísland í bili með kveðjutónleikum og með þeim safna í leiðinni fé til þess að greiða fyrir námið í tónlistarháskólanum sem hann segir að kosti talsvert. Námið tekur þrjú ár segir Már og fjögur ef hann tekur mastersnám.

Tónleikaröðin verður haldin víða um land en fyrstu tónleikarnir fara fram þann 25.ágúst í Sjálandi í Garðabæ og hefjast þeir klukkan 20:00. Næstu tónleikar í röðinni fara svo fram þann 1.september í Stapa í Reykjanesbæ kl.20:00 en Reykjanesbær er einmitt heimabær Más. Þá verða þriðju tónleikarnir haldnir á Sviðinu á Selfossi og hefjast tónleikarnir kl.20:00 eins og hinir fyrri. Á tónleikunum mun Már flytja sína allra bestu smelli ásamt einvala liði tónlistarmanna og sérstakra gesta og gera má ráð fyrir mikilli stemningu, enda er Már einn af okkar fjölhæfustu tónlistarmönnum. Kaupa má miða á tónleikana á TIX.is en komast má á þann vef með því að smella hér.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila