Meint olíumengun frá skipi reyndist eiga sér óvenjulegar skýringar

Á dögunum hafði Landhelgisgæslan samband við togarann Beiti sem var að veiðum djúpt austur af landinu. eftir að myndir úr gervitunglum sýndu talsverða olíuslóð eftir skipið. Skipstjóri og áhafnarmenn Beitis könnuðust ekki við að olíuleki væri frá skipinu og að ekki hefði nein olía verið losuð frá skipinu.

Áhöfnin kannaði þá málið nánar en gat engar skýringar fundið á olíubrákinni sem vissulega kom frá skipinu. Það var ekki fyrr en togarinn Vilhelm Þorsteinsson kom að Beiti sem uppgötvaðist að Beitir var með sprungið hvalshræ sem sat fast á perustefni skipsins. Enginn um borð hafði hugmynd um veru hvalsins á perunni en úr hræinu lak lýsi sem skyldi eftir sig brák.

Þar með var ráðgátan um dularfulla olíulekann leyst og laumufarþeginn á perunni var því eftir allt saman ástæða þess að viðvaranir bárust Landhelgisgæslunni.

í tilkynningu Landhelgisgæslunnar segir að þetta óvenjulega mál sýni að fjareftirlit sem þetta er langt á veg komið og sé sérlega mikilvægt til að hægt sé að halda uppi virku eftirliti í efnahagslögsögu Íslands.

Hér má sjá hvalshræið á perustefni Beitis
Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila