Mikilvægast fyrir framtíðina að gæta að sjálfbærum auðlindum okkar

Það er mikilvægast fyrir framtíð landsins að við gætum að sjálfbærum auðlindum okkar eins og landbúnaði og sjávarútvegi og einnig gæta þess að missa þær ekki frá okkur. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ásmundar Frirðikssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Hann segir Íslendinga gleyma því oft hversu heppnir þeir sé að búa við þá hreinu orku sem notuð sé hér á landi og vera ekki háður erlendum orkukerfum og segist stoltur af því að hafa staðið vaktina í orkupakkamálinu. Í raun gildi það sama um allar aðrar auðlindir og landnýtingu, að gæta verði að þeim því af þeim ræðst framtíð landsins. Hann segir stöðu bænda í samfélaginu honum vera sérstaklega hugleikin.

„það hefur lítið verið gert til þess að laga stöðu bænda á Íslandi en einhvern veginn þá sigla allir kjarasamningar framhjá þeim, allar lífskjarabreytingar, það er alltaf siglt framhjá buddu bændanna og núna hefur maður tekið eftir því að þegar talað er um að hækkanir á kjöti og afurðum til bændanna sem hafa fengið lítið sem ekki neitt á undanförnum árum að þá er kallað eftir því að þeim hækkunum verði sérstaklega mætt í kjarasamningum en það hefur engum dottið í hug að mæta lífskjörum bænda í undangengnum samningum því miður og þeir hafa setið bara eftir“

Hann segir ömurlegt að vera hluti af þeim hóp sem hafa viljað bæta stöðu bænda en ekki hafa náð því.

„það er auðvitað ekki bara okkur að kenna því það hafa skapast ýmsar aðstæður sem gera þetta að verkum en við megum auðvitað ekki gleyma því að matvæla og fæðuöryggi þjóðarinnar er eitt af grunnstoðum sjálfstæðra ríkja og þó fiskveiðar séu öflugar og miklar þá getum við aldrei án landbúnaðar verið og það er ekki bara nokkur þjóð í heiminum sem stendur ekki vörð um eigin landbúnað og það verðum við að gera“ segir Ásmundur.

Landbúnaður er loftslagsvænn

Ásmundur segir að landbúnaður á Íslandi sé loftslagsvænn. Ef bændur rækti hér skepnur til manneldis þurfi ekki að flytja inn kjöt og landræktun bænda sé ekki nægilega metin þegar kemur að því að reikna út kolefnisbindingu.

„ég veit ekki betur en að bændur séu að slá og hirða hey um allar koppagrundir og þegar þeir eru að slá þá er hvert einasta strá sem er að vaxa aftur upp á nýtt að binda kolefni, ég veit ekki til þess að þetta hafi nokkurn tíma verið tekið með í reikninginn þegar verið er að reikna út kolefnisbindingu nema þá bara með samanburðartölu frá Evrópu svo ég segi að við verðum auðvitað að hafa alla heildarmyndina í þessu og við eigum að standa vörð um landbúnaðinn á Íslandi“

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila