Mikilvægt að fólk láti vita ef það hefur minnsta grun um einelti

Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur og borgarfulltrúi

Það skiptir öllu máli að börn og einnig fullorðnir sem verða fyrir ofbeldi af hvers lags tagi þ.á.m. einelti láti vita af því og þeir sem verða varir við að slíkt er í gangi geri það líka.

Afleiðingar eineltis er oft háalvarlegar, skaðsemin getur varað alla æva. Þegar búið er að brjóta manneskju kerfisbundið niður í langan tíma er oft lítið eftir af sjálfstrausti og sjálfsöryggi. Einelti í netheimum er meira en okkur grunar. Foreldrar þurfa að fylgjast með hvað börn þeirra eru að skrifa á netið og hvaða skilaboð þau eru að fá og grípa inn í ef farið er yfir mörkin.

Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Kolbrúnar Baldursdóttur sálfræðings og borgarfulltrúa í síðdegisútvarpinu í dag en hún var viðmælandi Arnþrúðar Karlsdóttir.

Hún segir að þegar frétt birtist á vefmiðli þar sem fjallað er um einhverja persónu sem fólki gæti fundist eitthvað hafa gert rangt þá kæmi oft holskefla neikvæðra athugasemda sem sé látin dynja á viðkomandi oft í nokkra daga.

Í hugtakinu einelti felst að um sé að ræða endurtekningu, eitthvað sem er ítrekað, markvisst og beinist oft og iðulega gagnvart viðkomandi einstaklingi. Þá segir Kolbrún að dæmi séu um að einstaklingar séu teknir sérstaklega fyrir á vefsíðum inn á samfélagsmiðlum þar sem fjöldi ljótra athugasemda um viðkomandi eru látin falla.


Sjálfsagt er að skiptast á skoðunum, deila um málefni en engin þörf er að ráðast á persónuna. Umræða um málefni getur verið beitt og hörð án þess að tengja hana persónulega við manneskju. Ekki má gleyma að fullorðið fólk eru fyrirmyndir barnanna.

Hún segir fjölmiðla geta spornað við einelti með vandaðri umfjöllun um einstaklinga. Áður en frétt um manneskju sem líklegt er til að valda usla er birt þarf að skoða innihaldið og samhliða gefa þeirri manneskju færi á viðbrögðum. Fyrst og fremst á að birta staðreyndir. En fólk er oft mjög dómhart og stundum án mikils tilefnis er fólk hreinlega jarðað á samfélagsmiðlum.   

Þá segir Kolbrún að hún hafi lagt það til við skóla- og frístundaráð að farið verði kerfisbundið yfir viðbrögð grunnskóla Reykjavíkur gagnvart einelti með það að markmiði að kanna hvernig skólar sinna forvörnum og  hver viðbrögð skólanna eru komi kvörtun um einelti.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Athugasemdir

athugasemdir

Deila