Mótmælin halda áfram gegn Lúkasjenkó í Minsk og öðrum borgum – allsherjarverkfall hefst í dag

Lögreglumenn skutu táragasi og reyksprengjum til að dreifa mótmælendum í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands í gær.

Mótmælin til að koma Lúkasjenkó frá völdum halda áfram af fullum krafti í Hvíta-Rússlandi. Í gær mótmæltu tugir þúsunda, jafnvel á annað hundrað þúsunda mótmælenda í miðborg Minsk og í öðrum borgum. Lögreglan beitti táragasi, reyksprengjum og skaut gúmmíkúlum til að stöðva mótmælendur og skv. mannréttindasamtökunum Vesna voru um 160 handteknir í Minsk þar á meðal tveir blaðamenn. Í borginni Lida beitti lögreglan táragasi og handtók tugi mótmælenda að sögn rússnesku fréttastofunnar Ria. Mótmælendur hrópuðu „Verkfall” og veifuðu hvítrauða fánanum sem orðinn er kennimerki stjórnarandstöðunnar.

Allsherjarverkfall hefst í dag

Stjórnarandstaðan hefur hvatt til allsherjarverkfalls sem hefst í dag til að auka þrýstinginn á að Lúkasjenkó segi af sér og efnt verði til nýrra kosninga í Hvíta-Rússlandi. Stjórnarandstöðuleiðtoginn Svetlana Tichanaovskaja sem er í útlegð í Litháen segir í tilkynningu að allsherjarverkfall skelli á í dag mánudag ef stjórnin gangist ekki að „úrslitakröfum fólksins.” Hún skrifaði í gær að „stjórnin hefur enn á ný sýnt Hvít-Rússum að það eina sem hún getur gert er að beita ofbeldi. Þess vegna mun allsherjarverkfall hefjast á morgun þann 26. október.”

Bandaríkin, ESB, Bretland og Kanada hafa öll hafið þvingunaraðgerðir gegn ríkisstjórn Hvíta-Rússlands eftir kosningarnar. Rússland starfar með Lúkasjenkó samkvæmt samningum milli Rússlands og Hvíta-Rússlands.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila