Myrkur kórónuveirunnar leggst yfir Evrópu – Þýzkaland og Frakkland loka aftur – mestur fjöldi smita á einum sólarhring í Svíþjóð frá upphafi faraldursins

Kórónan grúfir á ný eins og myrkur yfir allri Evrópu

Þýska Bild segir að nýjar hertari reglur gildi í Þýskalandi eftir að kórónuveiran hefur náð stærstu dreifingu síðan í maí. Frá og með mánudeginum og í að minnsta kosti fjórar vikur mega einungis tíu manns hittast samtímis og þeir sem hittast mega aðeins vera að hámarki frá tveimur mismunandi heimilum. Líkamsræktarstöðvum og sundlaugum verður lokað, fótboltaleikir verða fyrir framan tóma áhorfendapalla. Veitinghúsum og knæpum verður lokað en leyft að fá matinn sendan heim. Eina undantekningin í Þýskalandi er að skólum og leikskólum verður haldið opnum.

„Við verðum að bregðast við núna til að komast hjá skyndilegu neyðarástandi í heilbrigðismálum í landinu” segir Angela Merkel kanslari Þýskalands.

29 þúsund gjörgæslurúm af 58 þúsund þegar upptekin

Samtímis tilkynnti Emmanuel Macron að Frakkland lokar aftur á föstudaginn. „Verið heima eins mikið og hægt er. Virðið reglurnar,” sagði Macron. Smit eykst hratt og 525 létust 26. október sem er hæsta dánartalan á einum sólarhring síðan í apríl. 30 þúsund smitast daglega og af 58 þúsund rúmum á gjörgæsludeild eru þegar 29 þúsund upptekin. Einungis í undantekningartilfellum fær fólk að yfirgefa heimilin t.d. að fara í vinnu og kaupa mat. Frönsku skólarnir verða áfram opnir en þeim var lokað í vor.

Kostar einn milljarð króna að bjarga lífi hvers einstaklings sem hægt er að bjarga

David Boati fréttamaður sænska sjónvarpsins segir að margir Frakkar séu uppgefnir á að lifa í einangrun eftir vorið. „Fólk er á hnjánum og er orðið langþreytt á faraldrinum og öllum frelsisskerðingum.” Boati vitnar í franskan hagfræðing sem kynnti í fyrri viku að sérhvert mannslíf sem bjargað væri frá kórónudauða kostaði samfélagið 60 milljónir sænskar krónur eða tæplega milljarð íslenskar krónur. „Það hefði verið ómögulegt í vor að nefna nokkuð slíkt, það hefði verið of mikið fyrir fólk. En núna verða þeir sífellt fleiri sem óttast langvarandi efnahagslegar afleiðingar aðgerðanna.”

Athugasemdir

athugasemdir

Deila