Námsmenn krefjast afsagnar Lúkasjenkó vegna kosningasvika og ofbeldis – fjöldi námsmanna og kennara handteknir

Mótmælin halda áfram í Minsk og fóru þúsundir námsmenn á fyrsta degi skólans í mótmælagöngu í gær og kröfðust afsagnar Lúkasjénkó. Lögregla og herlögregla réðust á friðsama mótmælendur og handtóku tugi námsmanna og kennara að sögn sænska sjónvarpsins. Að sögn The Epoch Times sagði Valentin Stefanovich lögfræðingur í mannréttindamálum að „yfirvöld séu afskaplega hrædd við að verkföll breiði úr sér á háskólunum.“ Andmælir hann ofbeldisárásum lögreglunnar á friðsama mótmælendur.

Ofbeldið eftir kosningarnar 9. ágúst s.l. leiddi til handtöku allt að 7 þúsund manns og margir illa leiknir eftir gúmmíkúlur lögreglunnar, deyfisprengjur og barsmíðar sem leiddu til dauða a.m.k. þriggja mótmælenda. Sænska sjónvarpið hefur sýnt marga mjög illa leikna mótmælendur eftir átök við lögregluna. Lögreglan dró sig aðeins í hlé eftir fjöldamótmælin en er á ný með ofbeldi gegn friðsömum mótmælum.

Kosningastarfsmenn segja frá svindlinu

The Epoch Times segir frá frásögnum starfsmanna við kosningarnar hvernig svindlað var á tölum. T.d. voru starfsmenn látnir votta óútfyllt talningablöð áður en atkvæði voru talin, votta talningu með fölsuðum tölum sem sýndu að Lúkasjénkó hefði fleiri atkvæði en hann fékk og fölsuðu margir starfsmenn tölur undir hótunum t.d. að missa störfin. Þegar úrslitin voru birt var sagt að Lúkasjénkó hefði fengið 4,6 milljónir atkvæða eða 80% en stjórnarandstæðingurinn Tsikanúskaja aðeins 558 þúsund atkvæði eða 10%.

Lúkasjénko hefur stjórnað með járnhendi síðan 1994 og kosningasvindl hluti af stjórnarfarinu. Núna undirbjó stjórnarandstaðan sig sérstaklega og hvatti starfsmenn til að segja frá kosningasvindli og opnaði m.a. heimasíðu, þar sem fólk gat sent myndir af atkvæðaseðlum til að bera saman við opinbera kosningaútkomu. Segir stjórnarandstaðan að komið hafi upplýsingar um kosningasvindl frá a.m.k. 24% af 5,767 kjördæmum landsins. Bara í þessum kjördæmum reiknar stjórnarandstaðan með að Tsikanúskaja hafi fengið yfir 471 þúsund atkvæði.

Valeria Artikhóvskaja sem vann við kjördæmastofu í Minsk neitaði að votta óútfylltan talningaseðil: „Ég neitaði að skrifa undir vegna þess að það er glæpur, svik.“ Hún sá hvernig atkvæðaseðlar tilheyrandi öðrum en Lúkasjénko voru settir í atkvæðasekkin með töldum atkvæðum fyrir Lúkasjenkó.

Vadim Korzykov sagði við AP að honum hefði verið vikið úr störfum kjörstjórnar þegar hann benti á kosningasvindlið. Hann frétti það síðar frá öðrum starfsfélögum að Tsikanúskaja hefði fengið fimm sinnum fleiri atkvæði en Lúkasjénkó í kjördæminu, þótt sú tala hefði aldrei verið gerð opinber.

Hæstiréttur fer ekki yfir sönnunargögn

Andrei Gnidenko sem vann í kjördæmi Vitebsk hefur sagt opinberlega frá því að hafa vottað kosningatöluseðla með fölsuðum tölum. Gnidenko segist hafa mikið samviskubit fyrir að hafa tekið þátt í ljótum leik og ákvað að ljóstra upp um málið.

Hljóðbönd hafa birst frá kjördæmum þar sem starfsmenn fá fyrirskipanir um að falsa kosningatölur vegna þess „að kosningastjórar hafi eigin vandamál sem þarf að leysa“ og því best að fylgja skipunum yfirvalda.

Kosningastjórn Lúkasjénko neitar öllum óskum um endurtalningu. Hæstiréttur Hvíta-Rússlands neitar að ógilda kosningarnar eftir að „kjörstjórnin hefur lýst yfir að þær voru löglegar.“ Maxim Znak lögfræðingur stjórnarandstöðunnar segir að Hæstiréttur hafi ekki einu sinni kíkt á 26 möppur með sönnunargögnum frá stuðningsmönnum Tsikanúskaja.

Baráttunni er engan veginn lokið. Kærur streyma til yfirvalda frá fyrri starfsmönnum á kjördæmastöðum sem vitna um svindlið. Znak sagði: „Við vitum að fólk gleymir þessu ekki. Fólk mun ekki gleyma því sem gerðist.“

Deila