Norðlenska, Kjarnafæði og SAH-Afurðir sameinast

Samkeppniseftirlitið hefur heimilað samruna matvælaframleiðendanna Norðlenska, Kjarnafæðis og SAH-Afurða. Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu vegna málsins að fyrirtækin hafi brugðist við mati eftirlitsins á mögulegum skaðlegum áhrifum samrunans á samkeppni með því að setja fram tillögur að skilyrðum sem væru til þess fallnar að mæta áhyggjum Samkeppniseftirlitsins af skaðlegum áhrifum samrunans á samkeppni, en gerðu um leið samrunaaðilum kleift að framkvæma samrunann.

Með skilyrðunum, sem felast í sátt samrunaaðila og Samkeppniseftirlitsins, skuldbinda aðilar sig til að grípa til eftirfarandi aðgerða:

Aðgerðir til að efla og tryggja samningsstöðu bænda.

Sameinað fyrirtæki skuldbindur sig til að standa ekki í vegi fyrir því að bændur færi viðskipti
sín frá sameinuðu félagi til keppinauta þess. Jafnframt er tryggður réttur bænda til að semja um afmarkaða þjónustu við sameinað fyrirtæki, s.s. slátrun, en aðra þjónustu við þriðju aðila, s.s. vinnslu.


Aðgerðir er varða verðlagningu einstakra þjónustuþátta.


Sameinað fyrirtæki skuldbindur sig til þess að aðgreina í bókhaldi sínu slátrun og vinnslu og lúta skorðum og reglum við verðlagningu á slátrun og annarri nánar skilgreindri þjónustu og í tiltekinn tíma. Þannig njóti bændur hagræðis sem sameinað fyrirtæki ætlar að ná og þurfi ekki að sæta verðhækkunum sem óhjákvæmilega geta leitt af samkeppnishamlandi
samrunum. Skilyrðin eru jafnframt til þess fallin að styðja við samningsforræði bænda og þar með styrkja það aðhald sem þeir geta beitt gagnvart kjötafurðastöðvum.

Þá eru ýmis fleiri skilyrði sem sett eru til þess að samrunin megi eiga sér stað.

Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir að skilyrðin verði bæði til þess að verja hagsmuni bænda og neytenda

„Það er hagur íslenskra neytenda og bænda að virk samkeppni ríki á mörkuðum fyrir slátrun gripa og í heildsölu og vinnslu kjötafurða. Kannanir á meðal bænda gefa til kynna víðtækan stuðning við aðgerðir til þess að standa vörð um samkeppni á þessu sviði. Það er mat Samkeppniseftirlitsins að sátt þess við samrunaaðila verji hagsmuni bænda og neytenda og geri sameinuðu fyrirtæki jafnframt kleift að eflast og dafna á grunni virkrar samkeppni og aðhalds af hendi bænda.“ Segir Páll Gunnar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila