Ný tónlistarmiðstöð fær 150 milljón króna framlag stjórnvalda

Ný tónlistarmiðstöð tekur til starfa snemma á næsta ári, en á undanförnum vikum hefur menningar- og viðskiptaráðuneytið kynnt nýja heildarlöggjöf um tónlist og nýja tónlistarstefnu sem voru í Samráðsgátt stjórnvalda í sumar. Í nýju fjárlagafrumvarpi er lögð sérstök áhersla á stofnun hennar innan málefnasviðs menningar og er gert ráð fyrir 150 milljón króna framlagi til hennar.

Í tilkynningu segir að tónlistarmiðstöð mun verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og tónlistariðnaðar, sinna bæði fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk og tónlistartengd fyrirtæki, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins, kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu og vera nótnaveita fyrir íslensk tónverk.

„Í nýrri tónlistarstefnu er lögð áhersla á að Ísland er tónlistarland. Íslenskt tónlistarlíf hefur leitt af sér ríkan menningararf sem á fastan sess í hjörtum landsmanna auk þess að vera mikilvæg atvinnugrein. Tónlist er atvinnuskapandi og nauðsynleg útflutningsgrein Íslendinga og íslenskt tónlistarlíf einkennist af sköpunargleði. Áhersla stjórnvalda með nýrri stefnu og Tónlistarmiðstöð er að hlúa að tónlistargeiranum, styðja við bakið á tónlistarfólki og fagfólki og skapa þeim frjósaman jarðveg til vaxtar,” segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Deila