Nýju Endurhæfingarráði falið að tryggja samþættingu í endurhæfingu fólks

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hafa skipað Endurhæfingarráð – samstarfsvettvang um endurhæfingu þvert á velferðarkerfi ráðuneytanna.

Ráðinu er ætlað að vera ráðherrunum til ráðgjafar við faglega stefnumörkun varðandi endurhæfingu. Markmiðið er að tryggja samþættingu í endurhæfingu fólks, hvort sem um er að ræða heilbrigðistengda endurhæfingu, atvinnutengda starfsendurhæfingu eða önnur tengd úrræði.

Við vinnuna er ráðinu meðal annars ætlað að greina og útfæra skilgreindar aðgerðir í fimm ára aðgerðaáætlun heilbrigðisráðuneytisins um heilbrigðistengda endurhæfingu, sem og að huga að samþættingu við aðgerðir sem tengjast endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu.

Þær aðgerðir snúa aðallega að samræmdu flokkunarkerfi, matskerfi og tilvísunarkerfi sem er ætlað að tryggja heildræna nálgun, samfellu og gæði þjónustunnar. Aðgerðirnar styðja því við að tekið sé tilliti til líkamlegra, sálfræðilegra og félagslegra þátta þegar endurhæfingarþörf er metin. Það er grundvöllur þess að geta gert raunhæfa og markvissa endurhæfingaráætlun þvert á kerfi sem er til þess fallin að bæta heilsu og færni einstaklinga.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra segir skipun ráðsins vera stórt skref til þess að auka möguleika fólks til virkni á vinnumarkaði.

,,Skipun Endurhæfingarráðs er stórt skref og samræmist vel þeim áherslum mínum sem snúa að því að koma starfsendurhæfingu fyrr að í ferlinu og styðja þannig við möguleika fólks til virkni á vinnumarkaði. Á næstu dögum mun ég einmitt birta til umsagnar í samráðsgátt drög að frumvarpi sem hefur það að markmiði að tryggja fólki í starfsendurhæfingu lengri tíma á endurhæfingarlífeyri. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að fólk sem missir starfsgetuna fái rétta þjónustu á réttum tíma því þannig getum við aukið líkurnar á farsælli endurkomu þess á vinnumarkað.“

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir endurhæfingu geta skipt sköpum fyrir samfélagið

,,Endurhæfing getur skilað sigrum sem ekki má vanmeta og geta skipt sköpum fyrir einstaklinginn. Endurhæfing getur líka skipt sköpum fyrir samfélagið þar sem m.a. ótímabært brottfall úr námi eða vinnu getur haft margföldunaráhrif til hins verra á heilsu einstaklingsins, hans nánustu ættingja og aukið kostnað heilbrigðiskerfisins að ósekju. Ekki er síður mikilvægt hvernig endurhæfing nýtist auknum fjölda aldraðra einstaklinga til að endurheimta eða viðhalda færni sinni og þannig sjálfstæði sínu, lífsgæðum og virkni í samfélaginu.“

Deila