Nýtt diplómanám á sviði farsældar barna hefst í haust

Ásmundur Einar Daðason, Ragnheiður Hergeirsdóttir, Guðný Björk Eydal og Herdís Steingrímsdóttir í fjarfundi

Nýtt diplómanám á sviði farsældar barna verður kennt í fyrsta skipti veturinn 2022–2023 við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Námið er þverfaglegt og því er ætlað að styðja við innleiðingu nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna með því að veita nemendum þekkingu á barnamiðaðri nálgun, samþættingu þjónustu, hlutverkum tengiliða og málstjóra auk mælinga á árangri. Færni í teymisvinnu og þverfaglegri samvinnu verður í forgrunni með áherslu á fyrsta stigs þjónustu við börn, þ.e. grunnþjónustu.

Nýja diplómanámið byggir á samstarfssamningi sem Ásmundur Einar Daðason, þáverandi félags- og barnamálaráðherra og núverandi mennta- og barnamálaráðherra, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu 22. september 2021. Samningurinn var um að Háskóli Íslands setji á laggirnar tvær tímabundnar lektorsstöður við Félagsráðgjafardeild skólans til þriggja ára í því skyni að efla kennslu og rannsóknir vegna nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. 

Nær 180 umsóknir bárust í námið og koma umsækjendur alls staðar að af landinu. Þeir hafa fjölbreyttan bakgrunn og starfa við þjónustu við börn allt frá 0-18 ára. Aðilar binda miklar vonir við að námið skili sér með markvissum hætti í starf með börnum.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra segist binda miklar vonir við námið:

„Ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna krefjast þess af okkur öllum sem vinnum með börnum og ungmennum að hugsa á annan hátt en við höfum gert hingað til. Það er nú skylda að allir þjónustuveitendur, þvert á kerfi, samþætti þjónustu sína og að samtalið á milli sé virkt og markvisst. Einn þáttur í innleiðingu laganna er að fræða þá sem vinna með börnum og ungmennum um þennan nýja hugsunarhátt og innleiða hann í alla þjónustu við börn í gegnum þá sem því sinna. Ég bind miklar vonir við þetta nám og er afar ánægður að sjá þau góðu viðbrögð sem náminu hafa verið sýnd“.

Ragnheiður Hergeirsdóttir, Háskóla Íslands segir mikinn áhuga meðal fagfólks um námið:

„Það er mjög ánægjulegt að sjá þennan mikla áhuga á farsældardiplómunni. Við sjáum fram á spennandi tíma og skynjum mikinn áhuga meðal fagfólks á að verða þátttakendur í þeim breytingum í þágu farsældar barna og fjölskyldna sem fram undan eru“.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila