Sóttvarnalæknir getur leitað aðstoðar lögreglu við að handtaka fólk samkvæmt nýju frumvarpi

Heilbrigðisráðuneytið hefur birt nýtt sóttvarnafrumvarp heilbrigðisráðherra eftir að það var tekið til endurskoðunar , breytinga og samráðs í gegnum samráðsgátt stjórnvalda. Í frumvarpinu er meðal annars gert ráð fyrir að sóttvarnalæknir fái nokkuð víðtækar heimildir þegar kemur að vinnslu persónuupplýsinga en sóttvarnalækni verður þannig heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar og lyfjanotkun einstaklinga, í þeim tilgangi að verjast alvarlegum heilsufarsógnum og til að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögunum að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Sóttvarnalækni verður enn fremur heimilt að miðla upplýsingum, þ.m.t. persónuupplýsingum, að því marki sem nauðsynlegt er vegna sóttvarna, til annarra stofnana.

Þá getur sóttvarnalæknir krafið heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisstofnanir um upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg, meðal annars úr sjúkraskrá þess sem er smitaður eða grunur leikur á að sé smitandi, svo og frá lögreglu og öðrum aðilum vegna meðferðar stjórnsýslumála.

Einnig er gert ráð fyrir að sóttvarnalæknir geti tekið stjórnvaldsákvörðun um frelsissviptingu einstaklings sem ber hættulegan smitandi sjúkdóm ef ekki næst samstarf við sjúkling um viðeigandi og hóflegar aðgerðir þar sem fylgt skal tilteknum fyrirmælum og reglum.

Í ákvörðun sem felur í sér sviptingu frelsis, svo sem einangrun eða sóttkví, skal koma skýrt fram hvaða dag og klukkan hvað hún fellur niður. Hafi einstaklingur fallist á samstarf um að fylgja reglum um einangrun eða sóttkví en í ljós kemur að hann hefur ekki fylgt þeim getur sóttvarnalæknir ákveðið að hann skuli settur í sóttkví eða einangrun á sjúkrahúsi eða í sóttvarnahúsi eða gripið til annarra viðeigandi aðgerða.


Sóttvarnalæknir getur tekið stjórnvaldsákvörðun munnlega ef hann telur að hvers konar töf á afgreiðslu málsins sé hættuleg. Veita skal málsaðila skriflega og rökstudda staðfestingu á ákvörðuninni svo fljótt sem verða má.
Sóttvarnalæknir getur leitað aðstoðar lögreglu við að framfylgja ákvörðunum sem teknar eru samkvæmt þessu ákvæði, eftir atvikum með líkamlegri valdbeitingu beri nauðsyn til.

Lesa má frumvarpið með því að smella hér

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila