Nýtt lagafrumvarp gerir ráð fyrir að stærri kvikmyndaverkefni fái 35% endurgreiðslu kostnaðar

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur sett drög að frumvarpi um breytingu á lögum um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar í Samráðsgátt stjórnvalda. Endurskoðun laganna er áherslumál í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og upplýsti ráðherra ríkisstjórn um stöðu vinnunnar á dögunum.

Hlutfall endurgreiðslu af framleiðslukostnaði sem til fellur hér á landi er samkvæmt gildandi lögum 25%. Víða í nágrannalöndum Íslands er það hlutfall komið í 35% og eru það þau lönd sem Ísland á í mestri samkeppni við í að laða til sín stærri og lengri tíma kvikmynda- og sjónvarpsverkefni og er því mikið hagsmunamál fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað að lögin verði endurskoðuð með tilliti til þeirrar samkeppni. Í drögunum sem ráðherra kynnti er lagt til að afmörkuð stærri verkefni, sem uppfylla ákveðin skilyrði sem fram koma í lögunum eigi rétt á 35% endurgreiðslu af framleiðslukostnaði.

„Við vitum að það er mikill áhugi á þessum áformum okkar um lagabreytingu á endurgreiðslunum og við höfum haft málið í algjörum forgangi. Brýnt er að öll viðmið séu skýr og gagnsæ þar sem einn helsti styrkleiki endurgreiðslukerfisins, í alþjóðlegum samanburði, hefur verið einfaldleiki þess og skýrleiki. Það eru gríðarleg tækifæri í að efla kvikmyndaframleiðslu á Íslandi. Þessar breytingar munu skapa fjölmörg ný og spennandi störf og auka útflutningsverðmæti þjóðarbúsins“ segir Lilja.

Deila