Ofbeldið færir út kvíarnar í Svíþjóð – starfsmenn í a.m.k. 35 sveitarfélögum þurfa fylgd öryggisvarða til og frá vinnu

Sífellt koma fram fleiri upplýsingar um hversu bágborið ástandið er orðið í Svíþjóð varðandi hömlulaust framferði glæpahópa sem skjóta, sprengja, drepa og hóta saklausum Svíum. Að sögn sænska útvarpsins er nú svo komið að starfsmenn 35 sveitarfélaga (af 290) þurfa fylgd öryggisvarða til og frá vinnu. Er það vegna allra þeirra hótana sem daglega dynja á starfsmönnum sveitarfélaganna eins og útvarp SAGA hefur áður greint frá.

Öryggisgæsla starfsmanna er fólgin í því að vernda starfsmenn svo þeir geti sest í bílinn eða farið á lestarstöðina eða eru fluttur á öruggan stað. Þessi tegund öryggisgæslu er í 35 sveitarfélögum í dag. Dæmi eru um að öryggisverðir þurfi að hafa eftirlit með og gæslu við heimili starfsmanna. Sumir starfsmenn hafa neyðst til að skifta um heimilisfang.

Starfsmönnum boðinn árásarneyðarbúnaður í 100 sveitarfélögum

Yfir eitt hundrað sveitarfélög hafa boðið starfsmönnum sínum viðvörunarbúnað við árásum sem m.a. kallar til lögreglu og öryggisverði við hugsanlega árás. Er þetta gert vegna allra hótana gagnvart starfsmönnum og hættu á að verða fyrir árásum fyrir að taka „neikvæðar“ ákvarðanir gagnvart einstaklingum.

Kristina Hedman yfirmaður öryggismála í Trollhättan segir ástandið hafa versnað verulega síðari ár. Það er „árásargjarnara“ núna. „Ég get ekki sagt að við höfum þurft á öryggisvörðum að halda fyrir tíu árum síðan, þetta er eitthvað sem ég upplifi að hafi komið í seinni tíð.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila