Ögmundur: „Við ein getum bjargað Julian Assange og Wikileaks úr klóm þeirra sem vilja hylma yfir margvíslegt misferli í skjóli ríkisvalds“

Ögmundur Jónasson fyrrverandi innanríkisráðherra segir almenning einan geta verið það haldreipi sem Julian Assange stofandi Wikileaks þarf til þess að losna úr haldi, það geti almenningur gert með því að láta í sér heyra og láti ekki bjóða sér hvað sem er. Þetta kemur fram á bloggsíðu Ögmundar þar sem hann ritar færslu vegna nýlegrar niðurstöðu í máli Assange þess efnis að heimilt sé að framselja hann til Bandaríkjanna.

Mál Assange snýst fyrst og fremst um pólitíska hagsmuni

Ögmundur sem hefur verið dyggur stuðningsmaður Assange og barist fyrir réttlæti í máli hans segir í færslunni að hann hafi velt því fyrir sér þegar Assange beið eftir dómi i máli sínu hafi málið í raun ekki snúist um dóminn gagnvart Assange heldur væri sá dómur sem breska réttarkerfið hlyti af hálfu almenningsálitsins vegna þeirrar niðurstöðu sem það kæmist að.

„Síðan hef ég sannfærst um að breska réttarkerfið er ekki upp á marga fiska þegar stór-pólitískir hagsmunir eru í húfi. Og um það snýst mál Julian Assange, pólitíska hagsmuni.“ segir Ögmundur.

Hagsmunaöfl hafa það að forgangsverkefni að koma Wikileaks fyrir kattarnef

Ögmundur segir að ekki þurfi að leita langt til þess að komast að raun um hverjir hagsmunirnir séu og hverja þeir hagsmunir varða.

„Þar eiga Bandaríkin og bandamenn þeirra þá hagsmuni að um stríðsglæpi þeirra í Írak, Afganistan, Líbíu og víðar verði þagað, að ekki verði upplýst um pyntingar í Guantanamó og öðrum fangelsum þar sem „óvinir“ voru meiddir og pyntaðir án aðkomu réttarkerfisins, að þagað verði um alþjóðavæðingu á forsendum auðhringa, að mengunarglæpir vestrænna stórfyrirtækja í Afriku komist ekki í hámæli  … um allt þetta hefur Wikileaks upplýst og margt fleira sem hefur reynst slíkur þyrnir í augum ráðandi afla auðvaldsheimsins að „Íslandsvinurinn“ Pompeo fyrrum forstjóri leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA, og síðar utanríkisráðherra BNA, sagði það forgangsverkefni að koma Wikileaks fyrir kattarnef.“

Helstu fjölmiðlar heims þegja vegna þess að þeir standa of nærri valdinu

Bendir Ögmundur á að hlálegt sé að nánast allur fjölmiðlaheimur veraldarinnar hafi birt fréttir byggðar á gögnum sem Wikileaks hafi birt, en á meðan séu fáir af helstu fjölmiðlum heims sem láti sig mál Assange varða, það sé einfaldlega vegna þess að þeir standi sjálfir of nærri valdinu, því þurfi almenningur að láta til sín taka.

„Fylgjumst með. En látum jafnframt frá okkur heyra. Málið snýst um okkur. Hvað okkur er leyft að heyra – hvað við megum vita. Finnst okkur þetta boðlegt?  Og ef ekki, ætlum við þá að láta bjóða okkur þetta?
Að sjálfsögðu ekki!“segir Ögmundur.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila