Ólafi og Karli Gauta vikið úr Flokki fólksins

Þingmönnunum Ólafi Ísleifssyni og Karli Gauta Hjaltasyni sem setið hafa á þingi fyrir hönd Flokks fólksins hefur verið vikið úr flokknum vegna Klaustursmálsins svokallaða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum sem send hefur verið á fjölmiðla. Í tilkynningunni segir „ Í ljósi alvarlegs trúnaðarbrests sem upp er kominn í þingflokki Flokks fólksins ákvað stjórn flokksins á nýafstöðnum fundi sínum í dag, að vísa þingmönnum flokksins þeim Karli Gauta Hjaltasyni og Ólafi Ísleifssyni úr Flokki fólksins, sbr. samþykktir flokksins grein 2.6 en þar segir: „Sé félagsmaður staðinn að því, að vinna gegn meginmarkmiðum og hagsmunum Flokks fólksins, skal hann sviptur félagsaðild og skal það gert á stjórnarfundi með auknum meirihluta atkvæða og félagsmanni tilkynnt það formlega“.
Stjórnin harmar þá rýrð sem þeir hafa kastað á Flokk fólksins, með óafsakanlegri þátttöku sinni á fundi með þingmönnum Miðflokksins á Klaustur-bar þann 20. nóv. sl. „. Bæði Karl Gauti og Ólafur sögðu í samtali við fjölmiðla í dag áður en fundurinn var haldinn að þeir ætluðu að sitja áfram á þingi en ekki hafa komið viðbrögð frá þingmönnunum eftir brottreksturinn.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila