Orku- og umhverfisprófessor: Trúið ekki stjórnmálamönnunum – vindkrafturinn er ekki haldbær

Í umræðugrein í Göteborgs-Posten gagnrýnir Per Fahlén, prófessor emeritus í orku og umhverfi á tækniháskólanum Chalmers og meðlimur í Konunglegu verkfræðivísindastofnuninni, ákvörðun stjórnmálamanna í Svíþjóð að skipta yfir í sólar- og vindorku. Segir hann að græna orkan sé verri í virkni og í umhverfislegu tilliti og einnig dýrari en sú hreina, stöðuga og áreiðanlega orka, sem við höfðum þar til nýlega (mynd facebook/E64 CC 3.0).

Umhverfisstefnan byggir á trú og pólitískum draumum

Per Fahlén skrifar í Göteborgs-Posten, að sólar- og vindorka séu ekki „sjálfbærir“ valkostir:

„Umhverfisstefnan byggir á trú og pólitískum draumum og niðurstöður þeirra ákvarðana, sem teknar hafa verið, stangast á við það, sem stjórnmálamennirnir segjast vilja ná.“

Árangurinn af því að hætta við kjarnorku í áföngum og fjárfesta í vindorku í staðinn, segir Fahlén að hafi leitt til flóknara og óvirkara raforkukerfis með lakari afhendingaröryggi og raforkugæðum. Það hefur einnig í för með sér umtalsvert hærri raforkukostnað, eykur koltvísýringslosun og margvíslega notkun á óendurnýjanlegum auðlindum og dregur verulega úr „sjálfbærni“ raforkukerfisins.

Grænu umskiptin skaða umhverfið

Fahlén telur alvarlegt, að stjórnmálamenn í svo alvarlegri stöðu sem nú er uppi, haldi áfram að halda því fram, að lausnin sé að byggja meira af því, sem veldur vandamálunum. Fahlén gagnrýnir einnig leyfisferli fyrir vindmyllur, sem hann telur að sniðgangi lýðræði og mannréttindi fólks á landsbyggðinni. Hann segir:

„Svokölluð græn umskipti skaða nærumhverfið og eru neikvæð fyrir líffræðilegan fjölbreytileika og líf í sjó og farvegi. Ef við ætlum að breyta, hvers vegna þá að breyta í sólar- og vindorku sem er virkni- og umhverfislega miklu verra og dýrara en kerfið, sem við höfðum? Þegar pólitískt knúin fjárfesting í sólar- og vindorku hófst í Svíþjóð, tók fyrrverandi forstjóri ABB, Percy Barnevik, saman stöðuna á eftirfarandi mjög viðeigandi hátt: „Við erum með ódýrt rafmagn í Svíþjóð, við höfum hreint rafmagn, við höfum öruggt rafmagn. Í stuttu máli, þá höfum við þá orkuveitu sem hvert annað land myndi vilja hafa. Og okkar helsta áhyggjuefni er, hvernig við komumst út úr þessari stöðu á sem skemmstum tíma.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila