Óttast og undirbúa móttöku nýrrar flóðbylgju flóttamanna frá Afganistan

Erna Solberg forsætisráðherra Noregs óttast nýja bylgju flóttamanna frá Afganistan vegna stríðsins þar. (©Nordiske Mediedager CC 2.0)

Stríðið í Afganistan gæti leitt til þess að margir leita skjóls í Evrópu, segir Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs og óttast, að þróunin í Afganistan geti stökkt mörgum á flótta til Evrópu og Noregs. Hin herskáa íslamistahreyfing Talibana hefur hafið sókn í Afganistan eftir að Bandaríkin og bandamenn þeirra tilkynntu í vor, að þeir færu burtu með herlið sín.

„Við vitum, að sú tegund óróleika sem við sjáum núna getur hrundið af stað nýjum flóttamannastraumum“ segir Erna Solberg. Hún leggur áherslu á, að það séu nágrannalönd Afganistans sem upphaflega þurfi að sjá um Afgana sem vilja komast frá stríðshrjáða landinu. En samkvæmt Solberg gæti það einnig orðið vandamál í Evrópu. Afganir búa í mörgum Evrópulöndum. Einnig í Noregi. Og oftast er það þannig, að þú leitar að stöðum þar sem þú átt þegar vini og fjölskyldu.

Talibanar réðust á nokkrar stórborgir um helgina þ.á.m. héraðsborgir eins og Lashkar Gah, Kandahar og Herat. Kandahar flugvöllur varð að stöðva allar brottfarir og komur tímabundið í gær sunnudag, eftir að Talibanar skutu tveimur eldflaugum á flugvöllinn. Stríðið milli Talibana og hermanna afganska hersins hefur þegar hrakið þúsundir Afgana frá heimilum sínum.

Gætum staðið frammi fyrir einni stærstu flóttamannakreppu sögunnar

Astrid Sletten, yfirmaður skrifstofu norsku flóttamannahjálparinnar í Afganistan, segir við norska TV2, að heimurinn gæti staðið frammi fyrir einni stærstu flóttamannakreppu sögunnar: „Það gætu verið milljónir. Afganir eru 37 milljónir og mjög margir þeirra munu leita skjóls. Ég hef enn ekki hitt neinn sem vill ekki fara úr landi.“

Erna Solberg forsætisráðherra bætir við, að hún vonast til að ná friðarsamningi við Talibanana: „Ég held að við skiljum öll, að Talibanar verða hluti af stjórn landsins. Vonin er, að friðarsamkomulag náist. En samningsvilji Talibana virðist ekki mjög sterkur í augnablikinu.“

Skortir húsnæði og starfsfólk í Svíþjóð til að taka á móti nýrri bylgju flóttamanna eins og 2015

Eins og Útvarp Saga hefur áður greint frá, þá hafa Svíar stöðvað brottvísun Afgana frá Svíþjóð sem áður var neitað um hæli og samþykkt að vísa úr landi. Innflytjendastofnunin hefur sleppt þeim aftur út í samfélagið, sem biðu í húsnæði stofnunarinnar eftir að fara úr landi. Mikael Ribbenvik forstjóri Innflytjendastofnunarinnar segir, að stofnunin hafi góðan viðbúnað til að taka á móti flóttamönnum en húsnæði og starfsfólk vanti: „Við höfum unnið að undirbúningi síðan haustið 2015. Það snýst um hvernig eigi að forgangsraða og vinna með öðrum stjórnvöldum og með sveitarfélögum. Að því leyti er viðbúnaður okkar góður. En húsnæði og starfsfólk, sem eru mikilvægustu þættirnir til að taka á móti flóttamannabylgju eins og árið 2015, það höfum við ekki. Við erum ekki með 100.000 tóma gististaði sem bíða eftir flóttafólki.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila