Óvissustigi lýst yfir vegna yfirvofandi óveðurs

Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir óvissustigi á landinu öllu vegna óveðurs sem gæti náð styrk ofsaveðurs. Í tilkynningunni kemur fram að búist sé við að veðrið skelli á með fullum þunga í fyrramálið með austanátt og allt að 50 metrum á sekúndu í hviðum.

Viðbragðsaðilar víða um land eru að gera sig klára enda búist við að foktjón geti orðið vegna veðursins. Fólk er hvatt til þess að huga að því að festa allt lauslegt utandyra og sópa frá niðurföllum.

Gert er ráð fyrir víðtækum samgöngutruflunum en nú þegar hefur öllu flugi verið aflýst á þeim tíma sem veðrið gengur yfir. Þá hefur neyðarstjórn Landsnets einnig lýst yfir óvissustigi vegna óveðursins og virkjað viðbragðsáætlun en þar á bæ búast menn við margþættum truflunum á raforkuflutningi.

Við viljum benda lesendum á að fylgjast með veðurspám á vef Veðurstofu Íslands og vef Almannavarna eftir atvikum. Finna má hlekkina á vefsíðurnar hér að neðan.

Smelltu hér til þess að fara á vefsíðu Veðurstofu Íslands

Smelltu hér til þess að fara á vefsíðu Almannavarna

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila