Páll Vilhjálmsson: Gögnin úr síma Páls skipstjóra Samherja voru afrituð á RÚV

Páll Vilhjálmsson blaðamaður og bloggari

Gögn sem notuð voru til grundvallar greinarskrifa um „skæruliðadeild“ Samherja og byggð voru á gögnum úr síma Páls Steingrímssonar skipstjóra Samherja voru afrituð úr síma Páls á starfsstöð RÚV, eftir að honum hafði verið stolið af sjúkrabeði Páls Steingrímssonar og honum skilað á meðan Páll lá meðvitundarlaus á spítalanum. Þetta kom fram í máli Páls Vilhjálmssonar blaðamanns og bloggara í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Péturs Gunnlaugssonar.

Eins og kunnugt er hafa blaðamenn sem komu að skrifunum fengið stöðu sakbornings, fjórir blaðamannana hafa verið kallaðir til yfirheyrslu hjá lögreglu vegna málsins en það eru, Aðalsteinn Kjartansson, Arnar Þór Ingólfsson, Þóra Arnórsdóttir og Þórður Snær Júlíusson. Páll segir þá blaðamenn sem komu að skrifunum hafi vitað fjórum dögum áður en símanum var stolið að Páll skipstjóri yrði á þeim tímapunkti óvígur.

Páll bendir á að tvær vikur hafi liðið frá því síma Páls var stolið og þar til fréttir sem unnar voru upp úr gögnunum birtust samtímis á Kjarnanum og Stundinni. Segir Páll að Kjarninn hafi þegar játað í fréttinni sem unnin var upp úr gögnunum að þau hafi verið fengin með ólögmætum hætti, það hafi beinlínis verið skrifað í fréttina. Síðar hafi RÚV svo birt frétt um málið byggða á fréttum Kjarnans og Stundarinnar.

Skipulagður verknaður

Þjófnaðurinn á símanum hafi þannig verið skipulagður í þaula að sögn Páls. Tímalínan sýni að síminn hafi horfið í tvo sólarhringa, á þeim tíma hafi hann verið afritaður og honum svo skilað til þess að Páli skipstjóra grunaði ekkert. Páll skipstjóri hafi hins vegar tekið eftir því að átt hafi verið við símann og farið með hann til lögreglu kært málið og lögregla í framhaldinu tekið málið til rannsóknar.

Páll segir að staðan nú sé sú að hans mati að lögregla viti á þessum tímapunkti að símanum hafi verið stolið og hann hafi verið afritaður á RÚV og þess vegna sé verið að boða blaðamenn sem að málinu komu til yfirheyrslu.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila