Algengar einnota plastvörur bannaðar á næsta ári

Alþingi samþykkti á síðustu dögum þingsins breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem felur það meðal annars í sér að bannað verður að setja tilteknar, algengar einnota vörur úr plasti á markað frá og með 3. júlí 2021.

Með banninu verður þannig bannað að setja á markað meðal annars einnota bómullarpinna úr plasti, hnífapör, diska, sogrör, hræripinnar og blöðrustangir. Þá verða matarílát, drykkjarílát, glös og bollar úr frauðplasti óheimil og ekki verður heimilt að afhenda endurgjaldslaust einnota bolla, glös og matarílát úr öðru plasti sem ætluð eru undir drykki og matvæli til neyslu, líkt og algengt er á skyndibitastöðum. Undantekningar eru þó gerðar ef vörur flokkast sem lækningatæki.

Þá kemur til skilyrðislaust bann við því að setja vörur á markað sem gerðar eru úr plasti sem er niðurbrjótanlegt með oxun eða svokallað oxó-plast. Vörur úr slíku plasti hafa rutt sér til rúms á markaði síðustu ár, einkum vissar tegundir plastpoka, en eðli þess er að sundrast í öragnir sem taldar eru skaðlegar heilsu og umhverfi og er vaxandi vandi á alþjóðavísu.

Þá er kveðið á um í nýju lögunum að aðar tilteknar einnota plastvörur sem ekki verða bannaðar verði að bera sérstakar merkingar með upplýsingum um vöruna og hvernig beri að meðhöndla hana og farga eftir notkun. Um er að ræða vörur svo sem tíðavörur, blautþurrkur til heimilis– og einkanota, ýmsar tóbaksvörur og bollar fyrir drykki.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila