Pólitískum ferli Boris Johnson er lokið

Jón Kristinn Snæhólm.

Pólitískum ferli Boris Johnson fráfarandi forsætisráðherra Bretlands er lokið og það færi best á því að Íhaldsflokkurinn finni arftaka hans sem allra fyrst. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Jóns Kristins Snæhólm alþjóða stjórnmálafræðings í síðdegisútvarpinu í dag en hann var viðmælandi Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar.

Jón Kristinn segir að ef beðið verði fram í október með forsætisráðherraskiptin geti það orðið nokkuð dýrkeypt fyrir Íhaldsflokkinn því sú staða gæti leitt til innanflokksátaka sem stæðu þá yfir allan þann tíma.

„við eigum náttúrulega eftir að sjá hvernig flokknum tekst að stýra landinu fram að leiðtogakjörinu sem er flókið og langt ferli en það getur vel verið að menn hreinlega gefist upp á þessu og það verði settur inn nýr forsætisráðherra, ég er þó ekki að segja að af því verði, en það er enginn í sjónmáli núna sem er að fara að sigla inn í þetta embætti, það er of snemmt að segja til um það“

Aðspurður um hvort hann sjái fyrir sér að boðað verði til kosninga segir Jón Kristinn að það verði í höndum næsta leiðtoga Íhaldsflokksins að ákveða það, það muni væntanlega skýrast þegar rykið fer að setjast eftir þessa nýjustu sprengjur í Breskri pólitík.

Í þættinum var einnig rætt við Gústaf Skúlason fréttamann í Stokkhólmi og segir hann að lýsa mætti ástandinu innan Íhaldsflokksins sem hamförum

„það gat auðvitað enginn séð fyrir þessa gríðarlegu flóðbylgju afsagna sem komið hafa fram undanfarna sólarhringa og það sem kemur fram í þessu er alger uppreisn gegn Boris og þarna hefur farið fram gríðarlega hörð valdabarátta á bak við tjöldin og Nigel Farage hefur sagt að flokkurinn muni hljóta hrikalega útreið í næstu kosningum ef fram heldur sem horfir og Boris sitji áfram sem forsætisráðherra þangað til í október, það sé ámælisvert“

Þá hafi Farage einnig sagt að það hefði verið hluti af Brexit að losna við Elítisma, minnka bilið milli stjórnmálamanna og hins venjulega borgara, það bil hafi þvert á móti aukist á valdatíð Boris Johnson, segir Gústaf.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila