Pútín kallar heim herlið við landamæri Hvíta-Rússlands eftir fundinn með Lúkasjenkó

Vladimír Pútín forseta Rússlands virtist leiðast á köflum á meðan Lúkasjenkó hélt langa ræðu.

Á fundi Lúkasjenkós með Pútín í gær í Sochi var leiðtogi Rússlands ekki mikið fyrir tillögu Lúkasjenkós að bæði ríkin sameinuðu heri sína til að „standa gegn” ógninni frá herjum Nató. Í staðinn kallaði Pútín heim herlið Rússa við landamæri Hvíta-Rússlands. Pútín gerði Lúkasjenkó grein fyrir því að Hvíta-Rússland þyrfti að leysa sín eigin vandamál sjálf „á rólegan hátt.” Sýnir það að valdhafarnir í Kreml eru ekki að íhuga nein bein hernaðarleg inngrip í Hvíta-Rússlandi. Lúkasjenkó fór samt ekki tómhentur heim því Pútín lofaði 1,5 milljarða dollara láni til Hvíta-Rússlands.

Rússneskir fjölmiðlar sýndu myndir af herbílum keyra frá landamærunum aftur til bækistöðva sinna í Rússlandi.

TASS fréttastofan hafði eftir Dmitry Peskov blaðafulltrúa Pútíns „að mikilvægur árangur í viðræðum beggja forsetanna í Sochi varð um samkomulag að Rússland flytji á brott þjóðvarðlið og sérsveitir sem staðsettar voru nálægt landamærum Rússlands og Hvíta-Rússlands.”

Lánið frá Rússlandi kemur sér vel fyrir Lúkasjenkó sem stendur andspænis gríðarmiklum og vaxandi fjöldamótmælum í Minsk og þverrandi efnahag og gæti einnig þurft að kaupa sér stuðning ráðamanna heima fyrir til að vinna tíma.

The Guardian skrifaði í gær að Lúkasjenkó hefði sagt við Pútín: „Vinur þinn er í vanda – ég meina það vinsamlegast.” Segir Guardian að „Pútín virtist sýnilega leiðast á köflum, hamraði með höndum og fótum þegar Lúkasjenkó hóf langan einlestur.” Mynd frá RT hér að neðan sýnir líkamsstellingar þjóðhöfðingjanna sem kannski tjá meira en þúsund orð. Á meðan ekkert bólar á íhlutun NATO og ESB í málefni Hvíta-Rússlands virðast rússnesk yfirvöld velja að halda sér á hliðarlínunni.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila