Pútín segir málið ekki flókið: Opnið Nord Stream 2 og þið fáið meira gas

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, neitaði því á föstudag, að orkukreppan í Evrópu væri honum að kenna. Segir Pútín málið ofureinfalt: ef ESB vilji kaupa meira gas, gæti það aflétt eigin refsiaðgerðum, sem koma í veg fyrir opnun Nord Stream 2 gasleiðslunnar (mynd Kreml).

Hnappurinn til að opna Nord Stream 2 er á borði ESB – þarf bara að ýta á hann til að leysa orkukreppuna

Eftir leiðtogafund Shanghai samvinnustofnunarinnar í Úsbekistan s.l. föstudag, ræddi Pútín við blaðamenn. Hann sagði að „stefna græningja“ væri orsök orkukreppunnar – og lofaði að Rússar myndu standa við skuldbindingar sínar í orkumálum. Frá þessu greinir Reuters.

„Niðurstaðan er sú – þ.e.a.s.ef vilji er fyrir hendi og staða mála er svona erfið, þá þarf bara að aflétta refsiaðgerðunum gegn Nord Stream 2, sem þýðir 55 milljarða rúmmetra af gasi á ári. Ýtið bara á takkann og allt fer í gang.“

Þjóðverjar stöðvuðu Nord Stream 2 skömmu áður en Rússland réðst á Úkraínu

Nord Stream 2 er jarðgasleiðsla á milli Rússlands og Þýskalands sem liggur um Eystrasaltið og er fjármögnuð af rússneska Gazprom og nokkrum evrópskum orkufyrirtækjum. Verkefnið hófst árið 2011 til að stækka Nord Stream og tvöfalda árlega flutningagetu á jarðgasi upp í 110 milljarða rúmmetra á ári.

Fyrir ári síðan var leiðslan tilbúin – en Þýskaland ákvað að hætta við verkefnið í febrúar. Ákvörðunin var tekin nokkrum dögum áður en Rússar réðust á Úkraínu.

Evrópskt gasverð hefur meira en tvöfaldast frá áramótum vegna minnkaðs framboðs á rússnesku gasi. Verðhækkunin hefur haft gríðarlega neikvæð áhrif í Evrópu, iðnaðarfyrirtæki hafa neyðst til að draga úr framleiðslu sinni.

ESB og Rússland saka hvort annað

Evrópusambandi kennir Rússum um að nota orkuna sem vopn til að hefna sín gegn refsiaðgerðum sambandsins vegna innrásar Rússlands í Úkraínu.

Einnig eru uppi vangaveltur um, að Pútín sé að reyna að snúa íbúum aðildarríkja ESB gegn eigin ríkisstjórnum með þessum hætti. Hvort sem um vísvitandi stefnu er að ræða, einfalda samsæriskenningu eða óumflýjanlega afleiðingu refsiaðgerðanna, þá hefur rafmagnsskortur, hátt raforku- og eldsneytisverð leitt til þess, að margir Evrópubúar gagnrýna afstöðu Evrópusambandsins til Rússlands.

Rússar neita alfarið, að þeir noti gaskranann til að stjórna almenningsálitinu í Evrópu. Telja Rússar þvert á móti, að Vesturlönd hafi byrjað efnahagsstríðið og refsiaðgerðir þeirra hafi torveldað rekstur Nord Stream 1 leiðslunnar. Því sé ábyrgðin á því, hvort almenningsálitið snýst gegn ESB, á herðum aðildarríkjanna sjálfra.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila