Báknið stækkar – Ríkið vill ráða til sín fjölda ráðgjafa á sviði þróunarsamvinnu

Utanríkisráðuneytið auglýsir á vefsvæði ráðuneytisins í dag eftir ráðgjöfum, jafnt fyrirtækjum sem einstaklingum, til að sinna verkefnum á sviði fiskimála, jafnréttismála, landgræðslu og sjálfbærrar orku í alþjóðlegu þróunarsamstarfi . Málaflokkarnir eiga það sameiginlegt að vera áherslusvið í íslenskri þróunarsamvinnu.

Fram kemur í auglýsingu ráðuneytisins að ekki sé um einstök skilgreind verkefni að ræða á þessu stigi heldur er um ráðgjafalista og mun umfang og eðli verkefna ráðast af eftirspurn frá samstarfsaðilum svo sem alþjóðastofnunum.

Þá segir að þau sérfræðisvið sem sérstaklega sé óskað eftir, mótist af framboði og eftirspurn frá samstarfsaðilum og að einungis sé óskað eftir sérfræðingum sem uppfylla skilyrði A og B ráðgjafa, en skilgreininguna má sjá hér að neðan:

A: Ráðgjafi með háskólapróf í viðeigandi grein skv. sérfræðisviði og meira en 20 ára reynslu í faginu.
B: Ráðgjafi með háskólapróf í viðeigandi grein skv. sérfræðisviði og meira en 10 ára reynslu í faginu.

Samkvæmt upplýsingum verða verkefnin unnin samkvæmt skilgreindum beiðnum og verklýsingum frá samstarfsaðilum svo sem verkefnisteymum Alþjóðabankans eða öðrum alþjóðlegum samstarfsstofnunum. Þá segir að verk geti verið af öllum stærðargráðum en búist er við að algengt verði að verkefni verði á bilinu 50-200 tímar. Jafnframt segir að Utanríkisráðuneytið muni halda utan um skrá áhugasamra ráðgjafa og fyrirtækja og gera staðlaðan samning um verkefni beint við viðkomandi fyrirtæki/einstakling.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila