Ráðherraskipti í ráðuneytum í morgun

Svandís Svavarsdóttir afhenti Willum Þór Þórssyni lyklana að Heilbrigðisráðuneytinu í morgun

Dagurinn í flestum ráðuneytum landsins hófst í dag á ráðherraskiptum þar sem fráfarandi ráðherrar í ráðuneytunum létu arftaka sína lykla af ráðuneytum sínum í té og héldu svo til nýrra ráðuneyta sinna, það er að segja, þeir ráðherrar sem færðir voru á milli ráðuneyta. Einn af þeim nýju ráðherrum er Willum Þór Þórsson sem tekur við heilbrigðisráðuneytinu.

Willum segir það mikla áskorun að taka við þeim stóru og mikilvægu verkefnum sem heyra undir ráðuneytið. Hann muni leggja sig allan fram í þeirri vinnu sem framundan er og taki stoltur við keflinu af Svandísi.

Nýr stjórnarsáttmáli annars ráðuneytis Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra var kynntur í gær. Í sáttmálanum er lögð áhersla á að horfa skuli á heilbrigði þjóðarinnar í víðu samhengi og að það séu sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, efnahagslegir og félagslegir að lögð sé aukin áhersla á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál:

Aðgangur allra að heilbrigðisþjónustu er réttlætismál. Mikilvægt er að heilbrigðiskerfið þjóni hverjum og einum og að tryggt sé með miðlægum biðlistum að þjónusta sé veitt innan skilgreinds biðtíma. Þróa verður heilbrigðiskerfið í takt við breytta samsetningu þjóðarinnar, mönnunarþörf og lífsstílssjúkdóma. Haldið verður áfram að draga úr greiðsluþátttöku fólks fyrir heilbrigðisþjónustu til að tryggja jafnt aðgengi.

Staða og hlutverk Landspítalans sem mikilvægustu heilbrigðisstofnunar landsins verður styrkt og sérstök áhersla lögð á að fylgja eftir uppbyggingu gjörgæslu og bráðadeildar. Heilbrigðisstofnanir verða styrktar til að tryggja að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað og aðgengi jafnað um land allt.

Við ætlum að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla hópa samfélagsins, ekki síst börn og ungmenni. Geðheilsuteymi verða efld um land allt, áhrif notenda á þjónustuna aukin, forvarnir bættar og áhersla lögð á að veita fjölbreytta þjónustu sem er miðuð að ólíkum þörfum.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila