Rændi matvöruverslun, réðist á starfsmann og skemmdi tvær bifreiðar á flótta undan lögreglu

Talsverður hasar var á vakt lögreglu síðasta sólarhringinn þar sem líkamsárásir, rán og flóttatilraun var á meðal þeirra verkefna sem komu á borð lögreglu.

Tilkynnt var um mann sem rændi matvöruverslun en maðurinn réðist að starfsmanni verslunarinnar áður en hann tók peninga úr sjóðsvél og lagði akandi á flótta. Lögreglan kom skömmu síðar auga á bifreiðina og elti manninn sem neitaði að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu.

Ók maðurinn á miklum hraða, meðal annars á móti umferð og ók hann utan í tvær bifreiðar á flóttanum. Þegar lögreglu tókst að stöðva manninn sem var í mjög annarlegu ástandi var hann umsvifalaust handtekinn og færður í fangageymslur. Auk ránsins og þeirra umferðarlagabrota sem hann framdi á flóttanum er hann grunaður um ítrekaðan akstur án ökuréttinda, akstur undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna svo eitthvað sé nefnt.

Þá fékk lögreglan tilkynningu um ungan pilt í annarlegu ástandi sem hafði ráðist að tveimur stúlkum og reynt að ræna þær. Aðra stúlkuna kýldi hann með krepptum hnefa í andlitið auk þess sem hann hafði ráðist á föður annarar stúlkunnar. Faðir stúlkunnar náði að halda piltunum föstum þar til lögreglan kom á vettvang og handtók piltinn. Hann var eftir nánari skoðun færður á viðeigandi stofnun.

Afskipti voru höfð af ölvuðum ungum manni með stóra kylfu í miðborginni.  Maðurinn var handtekinn grunaður um brot á vopnalögum og var kylfan haldlögð.  Maðurinn sagðist hafa orðið fyrir líkamsárás í miðborginni og ætlaði að leita hefnda með kylfunni.  Maðurinn var laus eftir viðræður og ætlaði að fara heim til sín.

All nokkrir ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um að aka undir áhrifum og hafa mál þeirra verið sett í hefðbundinn farveg. Tilkynnt var um innbrot í iðnaðarhúsnæði í Kópavogi í nótt og voru tveir menn handteknir á vettvangi vegna málsins grunaðir um að tengjast innbrotinu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila