Rampa upp Reykjanesbæ

Þrítugasti rampurinn í átakinu Römpum upp Ísland var vígður við hátíðlega athöfn við tískufataverslunina Kóda í Reykjanesbæ á fimmtudaginn. Römpunum er ætlað að veita hreyfihömluðum aukið aðgengi að verslun og þjónustu en stofnaður var sjóður með aðkomu fyrirtækja og aðila sem standa mun straum af kostnaði fyrir þá verslunar- og veitingahúsaeigendur sem taka þátt í verkefninu. Fyrsti rampurinn var vígður seint í maí og segja má að verkefnið gangi hratt og vel fyrir. Dagmar Rós Skúladóttir, aðgengisfulltrúi Reykjanesbæjar og skipuleggjandi viðburðarins, sá um að stýra athöfninni. 
 

„Þetta er auðvitað mikil lyftistöng fyrir samfélagið og ég er stoltur fyrir hönd okkar íbúa Reykjanesbæjar að fá að taka þátt í þessu göfuga verkefni. Ég á ekki von á öðru en að samfélag okkar eigi eftir að blómstra enn meira með komu þessara rampa og því ber að fagna. Ég hlakka til að sjá enn fleiri sveitarfélög taka þátt í verkefninu og trúi því að áður en við vitum af verðum við í sameiningu búin að ná að rampa upp allt Ísland,“ sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, í ræðu sinni.  
 

Í fyrra voru settir upp 100 rampar í miðborg Reykjavíkur í verkefninu Römpum upp Reykjavík. Gekk verkefnið vonum framar en smíði á römpunum lauk þremur mánuðum á undan áætlun og undir kostnaðaráætlun. 
 

„Að fá að taka þátt í þessu verkefni er auðvitað bara frábært. Við höfum lengið hugsað til þess að setja upp rampa sjálf og því tökum við þessum rampi fagnandi. Ég hlakka mikið til að geta tekið betur á móti fólki sem glímir við hvers konar hreyfihömlun. Einnig hjálpar þetta okkur að taka á móti gestum með barnavagna og svo framvegis, þannig að það má með sanni segja að allir græði á þessu göfuga verkefni,“ sagði Kristína Kristjánsdóttir, annar eigenda Kóda.   


 
Hægt er að kynna sér verkefnið nánar á vefsvæðinu rampur.is.
 
Römpum upp Ísland er verkefni sem miðar að því að setja upp 1.000 rampa á næstu 4 árum. Stofnaður hefur verið sjóður með aðkomu fjölmargra fyrirtækja og aðila sem standa munu straum af kostnaði fyrir þá verslunar- og veitingahúsaeigendur sem taka þátt í verkefninu. Með römpunum er öllum gert kleift að sækja veitingastaði og verslanir þátttakenda á landinu öllu. Unnið verður í góðu samstarfi við eigendur viðkomandi bygginga og skipulagsyfirvalda. Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, er hvatamaður verkefnisins. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila