Reykjavíkurborg og lífsskoðunarfélög héldu samráðsfund

Fulltrúar trú- og lífsskoðunarfélaga á höfuðborgarsvæðinu mættu á sinn fyrsta samráðsfund milli félaganna og Reykjavíkurborgar, í gær miðvikudaginn 24. nóvember.

Þetta kemur fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Í tilkynningunni segir að markmið samráðsvettvangsins sé að skapa farveg fyrir jákvæð samskipti milli borgarinnar og trú- og lífsskoðunarfélaga og styðja þannig við áherslur Reykjavíkurborgar á mannréttindavernd með góðu aðgengi allra að þjónustu og borgarsamfélagi. Þar gefst tækifæri til að standa vörð um gagnkvæma virðingu og skilning meðal ólíkra hópa, ræða ýmiskonar áskoranir innan samfélagsins og vinna að málefnum sem varða hagsmuni ólíkra hópa tengt þjónustu borgarinnar.

Fyrsti fundurinn gekk vel, þátttakendur fengu tækifæri til að kynna sig og greina frá því hvaða væntingar þau hefðu til samráðsvettvangsins. Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkur, segir vettvanginn mikilvægan hluta af mannréttindamiðuðu starfi borgarinnar: „Við viljum að öllum geti liðið vel í Reykjavík og róum öllum árum í þá átt. Gott samráð við fulltrúa trú- og lífsskoðunarfélöganna er mikilvægur þáttur í þessari vegferð.“

Á dagskrá samráðsfunda skulu tekin upp mál sem þátttakendur í samráðsvettvanginum hafa óskað eftir að tekin verði fyrir. Á fundunum skulu þátttakendur fá tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og vekja athygli á áskorunum sem mæta félagsmönnum þeirra.

Tillaga um að stofna sérstakan samráðsvettvang Reykjavíkurborgar og trú- og lífsskoðunarfélaga á höfuðborgarsvæðinu var samþykkt á fundi mannréttinda, nýsköpunar og lýðræðisráðs síðastliðið vor og fundarboð var sent félögunum í byrjun nóvember. Er það í takt við eftirfylgni aðgerðaráætlunar ráðsins, mannréttindastefnu Reykjavíkur og alþjóðlegt samstarf borgarinnar tengt þessum málaflokki.

Samkvæmt Hagstofu Íslands eru 52 trú- og lífsskoðunarfélög skráð hér á landi. Það er mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa sem hefur umsjón með samráði við fulltrúa félaganna fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila