Velferðarsvið Reykjavíkur og eldri borgarar fara í samstarf til þess að rjúfa einangrun eldri borgara

Velferðarsvið reykjavíkur, Félag eldri borgara og Landsamband eldri borgara hafa tekið upp samstarf sem miðar að því að rjúfa félagslega einangrun þeirra eldri borgara sem búa einir.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg að farið sé í þetta verkefni til þess að sýna náungakærleik og samstöðu á þeim óvenjulegu tímum sem nú ganga yfir í samfélaginu. Samstarfið gengur út á að sett hefur verið á laggirnar verkefnið Tölum saman sem miðar að því að hringt er með markvissum hætti í alla eldri borgara sem náð hafa 85 ára aldri og þeim boðinn símavinur, sem er í sambandi við viðkomandi einstakling með reglubundnum hætti.

Þeim sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu og gerast símavinir þá er starfsfólk félagsmiðstöðva að leita að sjálfboðaliðum til að verða símavinir. Hver sjálfboðaliði fær fjögur til sex nöfn og símanúmer og hlutverk þeirra verður að veita þeim einstaklingum sem þeir tengjast félagslegan stuðning í formi símaspjalls næstu vikurnar.

Með verkefninu er ætlunin að veita stuðning á tímum þar sem margt fólk upplifir félagslega einangrun og vanmátt. Símaspjallið kemur ekki í stað heimaþjónustu, heimahjúkrunar eða annarar þjónustu Reykjavíkurborgar heldur er það viðbót.


Bryndís Hreiðarsdóttir er í forsvari fyrir verkefnið fyrir hönd Reykjavíkurborgar en hún er verkefnisstjóri í Bústaða- og Háaleitishverfi. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, leiðir verkefnið hjá LEB og fyrir hönd Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni er Dýrleif Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri, í forsvari.

Þeim sem vilja gerast sjálfboðaliðar er bent á að hafa samband við ábyrgðaraðila í sínu hverfi.

Vesturbær, Sigríður Guðný Gísladóttir sími 411-2700
Miðbær, Drífa Baldursdóttir sími 411-9455
Hlíðar, Ragnhildur Þorsteinsdóttir sími  535-2760
Laugardalur, Bústaðir og Háaleiti Bryndís Hreiðarsdóttir sími 664-8314
Breiðholt, Anna Kristín  sími 665-4890
Árbær og Grafarholt, Heiða Hrönn Harðardóttir sími 411-2730
Grafarvogur, Kjalarnes og Bryggjuhverfi Birna Róbertsdóttir sími 411-2739

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila