Reynir Traustason kærður til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands

Reynir Traustason ritstjóri Mannlífs og Trausti Hafsteinsson fréttastjóri Mannlífs hafa verið kærðir til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands vegna umfjöllunar þeirra á vefsvæði Mannlífs um athafnamanninn Róbert Wessman.

Hjörtur Gíslason formaður siðanefndar Blaðamannafélags Íslands staðfesti við Útvarp Sögu að kæran hefði borist í morgun og að Ómar R. Valdimarsson á lögmannsstofunni Valdimarsson hefði lagt fram kæruna fyrir hönd Róberts Wessman.

Hjörtur vildi ekki gefa upp hvers eðlis kæran væri að öðru leyti en því að hún sneri að málefnum Róberts og að kæran beindist að tveimur einstaklingum, þeim Reyni Traustasyni og Trausta Hafsteinssyni.

Þá sagði Hjörtur að málið yrði tekið fyrir á fundi siðanefndarinnar þann 1.febrúar næstkomandi þar sem framhald málsins verður ákveðið.

Ómar R. Valdimarsson lögmaður sem fer fyrir kærunni vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu þegar eftir því var leitað.

Deila