Ríkið kaupir hluta af nýju Landsbankahöllinni

Undirritaður hefur verið samningur um kaup ríkisins á Norðurhúsi við Austurbakka af Landsbankanum. Um er að ræða tæplega 6 þús. fermetra byggingu sem er hluti af nýframkvæmdum Landsbankans við Austurhöfn. 

Fyrirhugað er að starfsemi utanríkisráðuneytisins verði komið fyrir í byggingunni, ásamt því að nýta hluta hennar undir sýningar- og menningartengda starfsemi á vegum Listasafns Íslands og er þá einkanlega horft til samtímalistar. Töluverð tækifæri eru til staðar til að tengja fyrirhugað sýningarrými við þá menningarstarfsemi sem þegar fer fram í Hörpu og síðar Listaháskóla Íslands sem koma á fyrir í Tollhúsinu. 

Húsnæðiskostur Stjórnarráðsins er háður miklum annmörkum – húsnæði ráðuneytanna er sundurleitt, á mörgum stöðum og í mörgum tilfellum úrelt. Einnig hefur verið lögð áhersla á að ráðuneyti séu staðsett í námunda við hvert annað til að styrkja samstarf þeirra og skapa tækifæri til hagræðingar og samnýtingar á þjónustu. Áfram verður unnið að úrbótum í húsnæðismálum annarra ráðuneyta.

Fyrir liggur að utanríkisráðuneytið mun næsta haust missa stóran hluta húsnæðis síns sem það hefur haft á leigu. Með flutningi utanríkisráðuneytisins í Norðurhús Austurbakka verður starfseminni komið fyrir á einum stað í sveigjanlegu og nútímalegu húsnæði sem verður nýtt með hagkvæmum hætti. 

Húsnæðið verður keypt fyrir andvirði sérstakrar viðbótararðgreiðslu frá Landsbankanum til ríkissjóðs sem þegar hefur verið innt af hendi og nemur kaupverðið um 6 ma.kr. miðað við fullfrágengið húsnæði.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila