Ríkislögreglustjóri segir sig frá rannsókn hryðjuverkamálsins

Ríkislögreglustjóri hefur sagt sig frá rannsókninni á fyrirhuguðum hryðjuverkum gegn lögreglu og Alþingi sem staðið hefur yfir frá því fjórir einstaklingar voru handteknir grunaðir um að leggja á ráðin um hryðjuverk á Íslandi.

Þetta kom fram á upplýsingafundi Héraðssaksóknara vegna hryðjuverkamálsins í dag. Fram kom að Sigríður Björk Guðjónsdóttir hafi sagt sig frá málinu eftir að nafn nákomins ættingja hennar kom upp við rannsókn málsins en um er að ræða einstakling sem hefur verið nokkuð umsvifamikill í vopnasölu á netinu.

Athygli vekur að þegar vopnasöluvefurinn er skoðaður má sjá mikið úrval skotvopna af öllum stærðum og gerðum og er tekið fram á vefnum að við kaup á sumum vopnanna þurfi að sækja um leyfi til kaupanna hjá ríkislögreglustjóra. Því vakna upp eðlilega spurningar um hæfi ríkislögreglustjóra þegar kemur að sölu á þeim vopnum. Tekið skal þó fram að ekki kom fram á fundi Héraðssaksóknara hvort eða hvernig ættingi ríkislögreglustjóra tengist hryðjuverkamálinu, einungis að nafn hans hafi komið upp við rannsókn málsins.

Fram kom á fundinum að fram hafi farið 17 húsleitir vegna málsins og hald hafi verið lagt á mikinn fjölda skotvopna og voru sum þeirra hlaðin við haldlagningu. Þá kom fram á fundinum að lögregluyfirvöld væru í samstarfi við erlend yfirvöld en ekki væri hægt að greina frá því að svo stöddu hvort tengsl væru á milli mannana og erlendra glæpahópa.

Uppfært kl.18:30. Ættingi Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra sem um ræðir er faðir Sigríðar, Guðjón Valdimarsson sem er umfangsmikill byssusali. Samkvæmt heimildum var húsleit framkvæmd á heimili hans í gær í þágu rannsóknar hryðjuverkamálsins og varð það til þess að Sigríður Björk sagði sig frá málinu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila