Ríkisstjórnin fallin í Noregi – Hægri flokkurinn og Framfaraflokkurinn tapa samtals 9 + 6 = 15 þingsætum

Jonas Gahr Störe formaður norska Verkamannaflokksins er ánægður eftir kosningarnar, þar sem ríkisstjórnarflokkarnir töpuðu og ríkisstjórnin er fallin en sósíalistar og Miðflokkur unnu. Verkamannaflokkurinn tapaði einum þingmanni og 1 % miðað við kosningarnar 2017. (Mynd sksk. sænska sjónvarpið).

í gær var kosið í Noregi og ríkisstjórnarflokkarnir Hægri og Framfaraflokkur töpuðu 15 þingsætum og halda því ekki lengur meirihluta sínum á Stórþinginu. Þrátt fyrir að Verkamannaflokkurinn tapaði einum þingmanni er hann stærsti flokkurinn á þingi með 26,4% atkvæða og 48 þingmenn. Hægri flokkurinn tapaði 9 þingmönnum og er með 20,5% atkvæða og 36 þingmenn, Miðflokkurinn er með vind í seglin, bætti við sig 9 þingmönnum og fékk samtals 13,6% atkvæða og 28 þingmenn og er þriðji stærsti flokkur Noregs. Framfaraflokkurinn tapaði 6 þingsætum og fékk 11.7% atkvæða og 21 þingmenn. Sósíalíski flokkurinn bætti við sig 2 þingmönnum, Rauðir auka verulega þingmannafjölda og bæta við sig 7 þingmönnum. Vinstri og Umhverfisflokkurinn bættu einnig við sig en Kristilegi flokkurinn heldur sínu þrátt fyrir minna fylgi:

  • Verkamannaflokkurinn fékk 26,4% atkvæði og 36 þingmenn (hafði áður 27,4% og 37 þingmenn)
  • Hægri flokkurinn fékk 20,5% atkvæða og 36 þingmenn (hafði áður 25% og 45 þingmenn)
  • Miðflokkurinn fékk 13,6% atkvæða og 28 þingmenn (hafði áður 10,3% og 19 þingmenn)
  • Framfaraflokkurinn fékk 11.7% atkvæða og 21 þingmenn (hafði áður 15,2% og 27 þingmenn)
  • Sósíalíski Vinstriflokkurinn fékk 7,5% atkvæða og 13 þingmenn (hafði áður 6% og 11 þingmenn)
  • Rauði flokkurinn fékk 4,7% atkvæða og 8 þingmenn (hafði áður 2,4% og 1 þingmenn)
  • Vinstri flokkurinn fékk 4,5% atkvæða og 8 þingmenn (hafði áður 4,4% og 8 þingmenn)
  • Umhverfisflokkurinn fékk 3,8% atkvæða og 3 þingmenn (hafði áður 25% og 1 þingmann)
  • Kristilegi flokkurinn fékk 3,8% atkvæða og 8 þingmenn (hafði áður 4,2% og 8 þingmann)

Óáreiðanlegar skoðanakannanir

Í gær skrifaði fréttaritari um kosningarnar og vitnaði m.a. í skoðanakönnun Norstat sem sýndi sig vera gjörsamlega frábrugðin endanlegri niðurstöðu sem sjá má hér að neðan. Það sem er eftirtektarvert, þegar útkoma kosninganna er borin saman við ýmsar skoðanakannanir, er að margir virðast ekki hafa trúað á framgöngu Miðflokksins og annað hvort ætlað tap Hægri flokksins vera of lítið eða of mikið. Þá spáðu ýmsir því, að Framfaraflokkurinn myndi jafnvel auka fylgi en þeir töpuðu 3,5% fylgi.

Úrslit kosninganna í Noregi í gær. Svörtu tölurnar fyrir ofan lituðu línurnar sýna atkvæðafylgið í kosningunum 2021 en daufu línurnar sýna fylgið í kosningunum 2017.

Leiðrétting og útskýring

4% reglan í Svíþjóð gildir um lágmark fyrir stjórnmálaflokk til að komast inn á þing

Í þættinum Heimsmál sagði fréttaritari að „sama regla gilti um 4% þröskuld fyrir flokka í Noregi og Svíþjóð.“ Þetta er rangt og þarfnast útskýringar. 4% reglan í Svíþjóð er krafa þingsins um lágmarks atkvæðafjölda stjórnmálaflokks til að komast inn á sænska þingið. Það er að segja, ef flokkurinn fær minna en 4% atkvæða í kosningum, þá kemst hann ekki inn á þing.

4% reglan í Noregi gildir um úthlutun uppbótarþingsæta

Í Noregi er líka 4% regla en hún gildir um úthlutun uppbótarþingsæta – ekki sem krafa um lágmarksatkvæðafjölda til að komast inn á þing. Þannig að í Noregi gildir, að ef stjórnmálaflokkur fær minna en 4%, þá kemst hann ekki með í kerfið fyrir úthlutun uppbótarþingsæta. Hins vegar komast allir sem fá a.m.k. einn þingmann, inn á þing. Leiðréttist þetta hér með.

Deila