Ritskoðun Evrópusambandsins mikið áhyggjuefni

Ritskoðun Evrópusambandins og það að ákveðnir fjölmiðlar hafi verið settir á bannlista í tengslum við ófriðinn í Evrópu er mjög mikið áhyggjuefni. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Haraldar Ólafssonar prófessors í veðurfræði við Háskóla Íslands og formanns Heimssýnar í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar.

Haraldur segir að það sem verra sé að enginn hreyfi við mótbárum við þessa ritskoðun Evrópusambandsins, enginn segi orð.

„ég hef nú trú á því að ef íslensk stjórnvöld myndu banna ákveðna fjölmiðla þá yrðu einhver læti hér, ég trúi eiginlega ekki öðru. Það sem þetta segir mér er að Evrópubúar séu tilbúnir til þess að láta teyma sig mjög langt á asnaeyrunum, menn séu tilbúnir til að undirgangast ýmis konar valdboð sem ég á erfitt með að trúa að menn væru tilbúnir að gera hér á Íslandi“

Ísland og Evrópusambandið eru ólík samfélög

Hann segir þetta staðfesta það sem flestir vita að Ísland og Evrópusambandið séu að vissu leyti afar ólík samfélög.

„það er auðvitað eitthvað sem mætti ræða meira, á hvaða hátt þessi samfélag eru ólík, þau eru ólík vegna stærðar, þau eru ólík vegna sögu þeirra, Ísland er mjög lítið og það eru mjög margar leiðir sem hægt er að fara í samfélagsskipulagi sem erfitt er að fara í þessum stóru löndum og það væri mjög kostnaðarsamt fyrir Ísland að þurfa að lúta þeim lögum sem að menn telja sig þurfa að setja í Frakklandi og Þýskalandi“

Þá séu fleiri þættir sem geri þessi samfélög ólík.

„hér er til dæmis örtunga sem þarf að vernda með einhverjum hætti, svo er það líka þannig að efnahagslífið á Íslandi er gjörsamlega ólíkt því sem að er í Evrópu, gjörsamlega ólíkt því sem margir vilja halda fram. Allt íslenskt efnahagslíf byggir á nýtingu á náttúrunni hvort sem það eru fiskveiðar, orkuframleiðsla eða að sýna eldgos og það er gríðarleg áhætta að ætla að fela einhverjum öðrum heimildir til þess að setja lög um þessa nýtingu“ segir Haraldur.

Eigum að vera fyrirmynd annara ríkja

Hann segir að eitt helsta framlag Íslands til alþjóðamála sé að vera til fyrirmyndar fyrir önnur ríki.

„til dæmis hvað varðar framleiðslu á hreinni orku en vera ekki í einhverri vitleysu eins og menn eru í austur Evrópu og svo er mikið svigrúm til þess að kenna öðrum löndum hvernig á að nýta hreina orku hvort sem það er jarðhiti eða vindur“

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila