Rúmlega 43.000 undirskriftir söfnuðust til stuðnings stjórnarskrá Stjórnlagaráðs

Mikill fjöldi undirskrifta safnaðist eða 43.422 undirskriftir söfnuðust til stuðnings nýrri stjórnarskrá en það voru Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá sem stóðu fyrir undirskriftasöfnuninni.

Markmiðið var að safna 25.000 undirskriftum og því ljóst að árangurinn er vonum framar. Stærstur hluti undiskriftana bárust rafrænt en til þess að skrá nafn sitt á listann rafrænt þurfti að staðfesta undirskriftina með rafrænum skilríkjum, en sú leið var farin til þess að tryggja öryggi og áreiðanleika söfnunarinnar.

Nú er hafinn undirbúningur að því að afhenda formönnum stjórnmálaflokkana sem sæti eiga á þingi undirskriftirnar og koma þeim sjónarmiðum á framfæri að mikill meirihluti fólks vill að stjórnarskrá Stjórnlagaráðs verði samþykkt, en eins og kunnugt er hafa formennirnir ásamt forsætisráðherra unnið að umdeildum breytingartillögum á gömlu stjórnarskránni. Gert er ráð fyrir að undirskriftirnar verði afhentar í hádeginu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila