Sænska kirkjan tekur stjórnmálaafstöðu gegn Ísrael og rannsakar „brot Ísraels á alþjóðalögum“

Stjórnmál hrinda burtu trúnni í Svíþjóð. Núna vill sænska kirkjan „sanna“ brot Ísrael á alþjóðalögum til að geta rekið áróður gegn Ísrael í boðskap sínum. Með sama áframhaldi verður ástandið eins og í Kína en þar hefur kommúnistaflokkurinn umskrifað Biblíuna og prestar verða að boða gleði sósíalismans í hvert sinn sem minnst er á Jesú og Guð. Myndin er af kirkjunni í Malmö (©Mksg1 CC 4.0).

Kirkja á hálum ís

Útvarp Saga hefur áður greint frá öðru vísi skipulagi sænsku kirkjunnar miðað við kirkjur í mörgum löndum. Kirkjunni í Svíþjóð er stjórnað af stjórnmálaflokkunum og almennar kosningar til kirkjunnar eins og til sveitarfélaga og þings. Á kirkjuþingi nýverið og eftir miklar umræður var samþykkt með 127 atkvæðum gegn 103, að kirkjan myndi rannsaka, hvort Ísrael sé ekki örugglega sek um aðskilnaðarstefnu gagnvart Palestínu. Á að athuga, hvort Ísrael hafi brotið alþjóðalög með aðskilnaðarstefnu sinni. Daniel Tisell frá Miðflokknum leiddi þingfulltrúana sem vilja, að sænska kirkjan fordæmi Ísrael.

Samþykkt var að kirkjuþingið léti stjórn kirkjunnar fá það verkefni að láta fara fram rannsókn á beitingu alþjóðalaga í Ísrael og Palestínu miðað við afstöðu og útskýringar Sameinuðu þjóðanna og Rómarasáttmálans á aðskilnaðarstefnu. Sænska kirkjan mun einnig taka upp málið innan heimsráðs kirkjunnar og heimsbandalags lúterstrúaðra.

Fjandskapur gegn Ísrael

Fleiri þingfulltrúar gagnrýndu tillöguna og spurðu, hvers vegna Ísrael verður alltaf að skotspóni á þingum sænsku kirkjunnar. Margir telja þetta vera enn eina sönnun þess, hversu fjandsamleg sænska kirkjan er orðin gagnvart Ísrael.

Eftir atkvæðagreiðsluna var stemmingin meira en dempuð hjá sumum þáttakendum. Fredrik Sidenvall segir í viðtali við Daginn: „Við sjáum sterka vinstri menningu herja innan sænsku kirkjunnar. Það er á ferð óskiljanleg árátta gagnvart Ísrael. Hún er algjörlega sögulaus og ástæðan fyrir stofnun Ísraelsríkis er fallin í gleymsku.“

Anna-Karin Hammar sósíaldemókrati, sem lengi hefur barist fyrir Palestínu, var þeim mun ánægðari: „Þetta þýðir, að sænska kirkjan hefur fengið skýrt umboð að taka alþjóðalögin fyrir í heild sinni, líka hvað varðar aðskilnaðarstefnuna.“

Deila