Sænska lögreglan þarf lögregluvernd til að fara í vinnuna í nýju brynvörðu lögreglustöðina i Rinkeby

Nýja lögreglustöðin í Rinkeby í norðurhluta Stokkhólmsborgar er byggð í sams konar stáli og brynvarðir skriðdrekar til að þola árásir. Lögreglan verður að vernda lögreglumenn sem þar starfa til og frá vinnu.

Nú mega allir sendiherrar Svíþjóðar útskýra fyrir umheiminum, hverju það sætir að lögreglan þarf á lögregluaðstoð að halda til að komast til og frá vinnu. Spyrja má hvort yfirvöld hafi ekki tök á málunum lengur þegar lögreglumenn þurfa sérstaka vernd í vinnunni á sama tíma og varnarlausir Svíar verða að horfa upp á daglegar skot- og sprengjuárásir, skóla- og bílabrennur, rán, morð og nauðganir. Engin orð yfirvalda duga lengur til að telja Svíum trú um að friðsamlegt sé í landinu, þegar sjálf lögreglan þarf að vinna í sprengjuheldum húsum og vernda starfsfélagana með vopnaðri gæslu.

Sósíaldemókratar sem bera mesta ábyrgð á ástandinu hafa í mörg ár reynt að telja landsmönnum og umheiminum trú um að „ofbeldið sé orðum aukið og búið sé að ná tökum á glæpamennskunni.” Sænska ríkisstjórnin hefur varið háum fjárhæðum til að „lagfæra ímynd Svíþjóðar” vegna orðspors um sturlungaöld innanlands. Raunveruleikinn og boðskapur sænsku ríkisstjórnarinnar fara ekki saman eins og útvarp SAGA hefur iðulega greint frá af sænskum vettvangi, nú síðast með morðinu á 12 ára Adríönu í suðurhluta Stokkhólmsborgar.

 Blað lögreglumanna Polistidningen skrifar að mikið hafi verið gert í Rinkeby til að mæta ofbeldinu m.a. hefur lögreglumönnum verið fjölgað,  fleiri myndavélar settar upp og núna flytur lögreglan í nýtt húsnæði með sérstökum öryggisráðstöfunum. Þegar Polistidningen skrifaði frétt frá Rinkeby 2016 voru margir lögreglumenn efins um að þeir vildu flytja þangað og voru hræddir um að verða fyrir árásum til og frá vinnu og fá bílana skemmda med skornum dekkjum. Jörgen Ohlsson öryggisfulltrúi starfsmanna segir „Núna sjást ekki merki þess að fólk hætti vegna þess að við flytjum hingað. Þeir sem koma hingað eru þvert á móti afar jákvæðir að hefja störf á fínni lögreglustöð.” Um vernd vinnufélaganna til og frá vinnu segir Ohlsson að „það getur verið spurning um að fylgja með til neðanjarðarlestarinnar eða sérstaka gæslu í anddyrinu.” 
Nýja lögreglustöðin í Rinkeby verður opinberlega tekin í notkun þann 1. september n.k. og verður þá hluti starfsemi lögreglunnar í Solna fluttur þangað.

Sjá nánar hér

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila