Sænska útvarpið verðlaunar fangelsaðan meðlim glæpaklíku sem „hljómlistamann ársins“

Fangelsaður glæpamaður valinn „hljómlistamaður ársins“ af sænska útvarpinu.

Glæpamaðurinn Yasin sem jafnframt rappar um glæpi sína hefur verið valinn „hljómlistamaður ársins“ og „hipop-rappari ársins“ af sænska útvarpinu í þættinum P3 Gull. Frá þessu greinir ríkisútvarpið á heimasíðu sinni. Yasin Abdullahi Mahamoud, einnig þekktur sem Yasin Byn eða bara Yasin hefur verið í fangelsi frá áramótum vegna gruns um mannráns á öðrum þekktum hljómlistarmanni. Yasin er tengdur glæpanetinu Shottaz í Rinkeby. Yasin rappari hefur rætur í Sómalíu og hefur áður verið dæmdur fyrir gróft brot gegn vopnalögum. Að auki var hann þrjá mánuði í fyrra í fangelsi grunaður um morð en var sleppt, þegar rannsókn málsins var lögð niður.

Lýsir daglegu lífi glæpahópa sem sjálfsögðu líferni í lögum sínum

Þar sem glæpamaðurinn er í fangelsi gat hann ekki veitt verðlaunum ríkisútvarpsins viðtöku en einungis var sagt frá því að hann hefði ekki komist til að taka á móti verðlaununum, án þess að skýra hvers vegna. Ann-Karin Larsson svæðastjóri sænska ríkisútvarpsins segir í viðtali við Expressen að „við lítum á hljómlist hans en ekki hvar hann er staddur í lífinu núna.“ Að Yasin tilheyrir glæpaklíkunni Shottaz og berst reglulega með vopnum við aðrar glæpaklíkur um yfirráð eiturlyfjamarkaðsins í norðvesturhluta Stokkhólms skiptir ríkisfjölmiðilinn engu máli. Í glæpabaráttunni eru morð, mannrán og misþyrmingar daglegt brauð til að ná markmiðum sínum.

Í umræðum í sænska sjónvarpinu fyrr á árinu sagði Hanif Bali þingmaður Móderata að „fjölmiðlar hylla þrjótana, það hefur algjörlega neikvæð áhrif á það fólk sem býr í þessum hverfum. Fyrir utan að vera fórnarlömb glæpastarfseminnar, þá hylla fjölmiðlarnir í ofanálag glæpamennina. Það er ekki sami hlutur, þegar maður er sjálfur glæpamaðurinn og gortar af því. Það væri álíka og Michael Jackson hefði sungið um hversu dásamlegt það væri að nauðga börnum.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila