Sænskur þjóðhagfræðingur segir lokun vegna farsóttarinnar ekki lækka dánartölur og sé „efnahagslegt sjálfsmorð“

Í viðtali við sænska sjónvarpið segir Lars Jonung prófessor í þjóðhagfræði við háskólann í Lund að lokun Svíþjóðar til að reyna að hefta framgang farsóttarinnar breyti heilsukreppu í efnahagslega kreppu: „Ég sé þetta sem aðgerð sem stjórnmálamenn grípa til til að sýna hversu miklir menn þeir eru en ekki af því að vísindin segi þetta vera lausn.“ Sífellt fleiri Svíar mælast jákvæðir fyrir covid-19 og umræður í Svíþjóð eru um hvort loka eigi Svíþjóð alveg eða ekki til að hefta veiruna. M.a. vill Fredrik Elgh smitsjúkdómaprófessor við háskólann í Umeå loka Svíþjóð en nýlega kynnti ríkisstjórnin að einungis 8 manns mega vera samtímis á samkomu og afgreiðsla áfengis er hætt eftir 22.00 á kvöldin.

Efnahagslegt harakíri

„Ég vona að stjórnmálamenn hafi lært að það er ekki hægt að leysa vandann með því að loka öllu, við verðum að skilja að til þess að efnahagslífið geti virkað eins vel og hægt er, þá verður að halda lokunum í lágmarki.“ Lars Jonung telur að miklar lokanir skapi efnahagsvanda án þess að það sé sannað að það minnki dánartölur. Segir hann að umfangsmiklar lokanir slái hart gegn velferðinni og þeir sem minnst mega sín missa vinnuna.

„Við erum mitt inni í farsóttinni. Vísindin vinna með þá þekkingu sem er til og hingað til hefur ekki komið svo margt fram í dagsljósið sem styður lokanir. „Fara allir niður í kjallarann, þá verður ekki svo mikið að snúa aftur til, þetta verður efnahagslegt harakiri. Við verðum að halda efnahagslífi þjóðfélagsins í gangi til að halda uppi sjúkrahúsum, heilsugæslu, skólum og kennslu.“

Frakkland, Spánn og Bretland dæmi um lokanir sem ekki lækka dánartölur

Lars Jonung segir Þýskalandi hafa tekist bærilega með færri látna og færri lokanir en t.d. Frakkland og Spánn. Frakkland, Spánn og Bretland eru dæmi um yfirgripsmiklar lokanir sem ekki halda aftur af fjölda látinna. Á sama tíma hefur Norðurlöndum tekist að halda dánartölum lægri en Svíþjóð og með meiri lokanir en Svíþjóð. „Sérhvert land er sérstakt og eflaust svo að í vissum löndum virka lokanir betur en í öðrum. En litið til Evrópu í heild er ekki hægt að fullyrða að lokanir séu árangursrík leið.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila