Samfylkingarmenn funda á Hilton á morgun og kynna frambjóðendur

Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar fer fram á morgun á Hilton Reykjavík Nordica og hefst klukkan 13:00. Þetta er fyrsta skipti síðan í lok árs 2019 sem jafnaðarmenn á Íslandi hittast á fjölmennum fundi í raunheimum.

Í tilkynningu segir að á fundinum verði kynntir til leiks frambjóðendur Samfylkingarinnar til Alþingiskosninga sem fram fara þann 25. september jafnframt verða staðfestir framboðslistar flokksins í öllum kjördæmum. Yfirskrift fundarins er Lykillinn að framtíðinni og verður sjónum sérstaklega beint að vanda og verkefnum á sviði húsnæðis- og fjölskyldumála sem Samfylkingin mun setja á oddinn í kosningabaráttunni.

Þá segir að ræða formanns flokksins, Loga Einarssonar hefjist klukkan 13:30. Þá verður fundinum einnig streymt á Facebooksíðu Samfylkingarinnar. Í ræðunni mun Logi fara yfir helstu áherslur flokksins fyrir kosningarnar í haust. Á fundinum verða ákveðnar fjöldatakmarkanir vegna sóttvarna en aðeins 150 manns sitja fundinn vegna þeirra.

Dagskrá
– Ræða formanns
-Framboðslistar Samfylkingarinnar til alþingiskosninganna 25. september kynntir og bornir upp til samþykktar
-Lykillinn að framtíðinni
-Umræðustofa með frambjóðendum

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila