Mál Samherja til rannsóknar hjá Héraðssaksóknara

Mál Samherja sem fjallað var um í fréttaþættinum Kveik á Rúv í gær þar sem fjallað var um mútugreiðslur Samherja til Namibískra stjórnvalda er til rannsóknar hjá Héraðssaksóknara. Þetta staðfesti Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari við fjölmiðla í morgun.

Umfjöllunin hefur vakið mikla athygli og hafa margir stjórnmálamenn tjáð sig um málið. Málið byggir á 30.000 skjölum sem uppljóstrunarvefurinn Wikileaks hefur birt opinberlega en þau skjöl má nálgast með því að smella hér.

Í gærkvöld birti Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja yfirlýsingu þar sem hann varpar allri ábyrgð á fyrrverandi starfsmann sinn, Jóhannes Stefánsson sem rætt var við í Kveik í gær þar sem hann greindi frá mútugreiðslum Samherja meðal annars til hátt settra embættismanna í Namibíu.

Kristinn Hrafnsson aðalritstjóri Wikileaks segir að þrátt fyrir að Jóhannes hafi sjálfur sagt frá því að hann hefði verið meðal þeirra manna sem þátt tóku í því að bera fé á namibíska embættismenn hafi Jóhannes verið með takmarkaða prókúru innan Samherja, hann hafi til dæmis ekki millifært fé af reikningum fyrirtækja í eigu Samherja inn á önnur félög í Dubai, því haldi yfirlýsing Þorsteins Más engu vatni að mati Kristins.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila