Sauli Niinistö Finnlandsforseti varar við útþenslu Úkraínustríðsins og yfirvofandi efnahagssamdrætti í Evrópu

Vladimir Pútín Rússlandsforseti og Sauli Niinistö Finnlandsforseti á meðan allt lék í lyndi (mynd wikicommons/ www.kremlin.ru CC 4.0).

Fólk mun eiga erfitt með að aðlagast þeim efnahagssamdrætti sem er yfirvofandi

Að sögn Sauli Niinistö forseta stendur hagkerfi ESB frammi fyrir viðsnúningi sem íbúarnir gætu átt erfitt með að aðlagast. Hann segir að á þessu stigi sé „ómögulegt að ímynda sér“ hvers konar nýtt upphaf í samskiptum Vesturlanda og Rússlands eða milli Finnlands og Rússlands geti orðið eftir stríðið í Úkraínu. Niinistö segir að það sem gerist í Úkraínu muni verða afgerandi með víðtækar afleiðingar.

Í viðtali við finnska blaðið Maaseudun Tulevaisuus segir Finnlandsforseti:

„Ég verð að segja, að áhyggjurnar af stigmögnun, þ.e.a.s. einhvers konar stækkun stríðsins í Úkraínu, fara vaxandi. Sú áhætta leynist enn allan tímann og það verður að taka tillit til hennar.“

Hann tilgreinir ekki með hvaða hætti og í hvaða átt stigmögnunin gæti átt sér stað en leggur áherslu á að „áhyggjum verði vissulega komið á framfæri annars staðar.“

Sjálfsbjargarviðleitnin verður aðalmálið – að tryggja að nægur matur verði á borðum

Á sama tíma og hættan á að stríðið í Úkraínu stækki er Evrópa að búa sig undir orkukreppu og efnahagssamdrátt í kjölfarið. Niinistö segir:

„Jafnvel við í Finnlandi erum vön því að búa við þá hugmynd að allt muni lagast á næsta ári. En núna er þetta allt í einu ekki lengur raunin. Það getur líka haft áhrif á eininguna í Evrópu.“

Samkvæmt Niinistö „erum við að færast í þá átt, þar sem sjálfsbjargarviðleitni í mjög víðum skilningi verður aðal verkefnið“:

„Það þýðir sjálfsbjargarviðleitni hvað varðar öryggi, þrátt fyrir að við séum með NATO-ferlið í gangi og sjálfsbjargarviðleitni til að sjá til þess, að nægur matur sé á borðum.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila