Seðlabankinn ætlar að hefja reglulega sölu gjaldeyris á innlendum gjaldeyrismarkaði

Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að hefja reglulega sölu gjaldeyris á innlendum gjaldeyrismarkaði frá og með mánudeginum 14. september næstkomandi.

Í tilkynningu segir að markmiðið sé að auka dýpt gjaldeyrismarkaðarins og bæta verðmyndun. Þannig áætlar Seðlabankinn að aukið og stöðugt framboð gjaldeyris muni að öðru óbreyttu að leiða til aukins stöðugleika á markaðinum.

Þá kemur fram í tilkynningunni að Seðlabankinn sé reiðubúinn að selja allt að 240 milljónum evra (40 ma.kr.) í reglulegum viðskiptum við viðskiptavaka á gjaldeyrismarkaði til ársloka 2020. Fyrirkomulag viðskiptanna verður hliðstætt því sem áður hefur verið beitt í reglulegum gjaldeyriskaupum bankans. Frá og með mánudeginum 14. september og til mánaðarloka mun Seðlabankinn selja viðskiptavökum 3 milljónir evra hvern viðskiptadag. 

Einnig kemur fram í tilkynningunni að bankinn muni í lok hvers mánaðar tilkynna um fjárhæð og ætlaða viðskiptadaga fyrir sölu gjaldeyris í mánuðinum sem í hönd fer og mun fjárhæðin taka mið af aðstæðum á markaði. Miðað verður að því að umfang gjaldeyrissölunnar sé í samræmi við eðlilega virkni markaðarins. Seðlabankinn áskilur sér því fullan sveigjanleika til að aðlaga fjárhæð, tíðni og framkvæmd sölunnar til að tryggja skilvirkni aðgerðarinnar.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila