Nýjar reglur um gjaldeyrismarkað taka gildi

Seðlabankinn hefur gefið út nýjar reglur um gjaldeyrismarkað sem taka eiga gildi 30.ágúst næstkomandi og falla eldri reglur sem settar voru árið 2008 úr gildi. Í tilkynningu frá Seðlabankanum segir að helstu breytingar með nýjum reglum snúi m.a. að skilyrðum þess að viðskiptavakar tileinki sér alþjóðlegu siðareglur Alþjóðagjaldeyrisnefndarinnar (e. The Global Foreign Exchange Committee, GFXC), FX Global Code, sem fjalla um bestu framkvæmd gjaldeyrisviðskipta.

Þá segir að tímasetningu skráningar hafi verið breytt sem og birtingu opinbers viðmiðunargengis íslensku krónunnar. Frá og með 31. ágúst 2020 mun Seðlabanki Íslands skrá opinbert viðmiðunargengi um klukkan 14:15 á mið-evrópskum tíma* (e. Central European time) til samræmis við verklag sem þekkist í nágrannalöndum. Viðmiðunargengið verður síðan birt opinberlega á heimasíðu bankans um klukkan 16:00 á íslenskum tíma hvern viðskiptadag en ekki um klukkan 11:00 eins og áður. Þá segir einnig í tilkynningunni að Seðlabankinn leggi áherslu á að gengi gjaldmiðla sé eingöngu birt í upplýsingaskyni og til að fullnægja lagakröfum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila