Segir Bergþór og Gunnar Braga ætla að fara í leyfi frá þingstörfum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra.

Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason þingmenn Miðflokksins munu innan skamms fara í leyfi frá þingstörfum vegna Klaustursmálsins. Þetta kemur fram í bréfi sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins sendi samflokksmönnum sínum í dag. Í bréfinu segir Sigmundur að hann sem formaður flokksins hefði átt að grípa inn í þegar þingmenn flokksins fóru ófögrum orðum um nafngreinda einstaklinga en um það segir hann í bréfinu “ Ég skammast mín fyrir að hafa ekki gert það en sök mín hvað þetta varðar er því miður miklu meiri en nemur þessum eina fundi. Frá því ég hóf þátttöku í pólitík eru fjölmörg dæmi um að ég eða aðrir hefðum átt að grípa inn í og stöðva óviðeigandi umræður. Ég hef setið ótalsinnum með fulltrúum ólíkra flokka þar sem sambærilegar umræður hafa átt sér stað án þess að ég eða aðrir höfum stöðvað þær.“.

Hefur heyrt þingmenn flestra flokka úthúða samflokksmönnum

Athygli vekur að í bréfi Sigmundar greinir hann frá því að sú hegðun sem hans þingmenn séu gagnrýndir fyrir hafi viðgengist innan annara flokka “ Ég hef hlustað á þingmenn flestra flokka úthúða flokksfélögum sínum og nota orðbragð sem í sumum, jafnvel mörgum, tilvikum er enn grófara en það sem birst hefur að undanförnu. Þingmenn af báðum kynjum eiga þar í hlut og fórnarlömbin eru auk þess af báðum kynjum. Mér hefur þótt það til marks um einstaka hræsni þegar fólk sem maður hefur ítrekað heyrt segja hreint út sagt ógeðfellda hluti um félaga sína og grófustu brandara sem ég veit um stígur nú fram uppfullt af vandlætingu.. „.

Mikilvægt að fara yfir hvernig koma eigi fram við hvort annað

Sigmundur segir í bréfinu að mikilvægt sé að farið verði yfir málið og gerðar verði ráðstafanir sem miði að því að bæta framkomu flokksmanna í garð hvors annars og annara “ Nú ættum við að einsetja okkur að fara yfir hvernig við störfum sem flokkur, og sérstaklega þingflokkurinn, með það að markmiði að við verðum til fyrirmyndar í allri framkomu og hegðun. Leggja línurnar um hvernig við tölum við- og um annað fólk, þátttöku í skemmtunum og öðrum viðburðum, meðferð áfengis og aðra þá hluti sem vonandi geta orðið til þess að hafa jákvæð áhrif á starfsumhverfi stjórnmálanna.“.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila