Segja að leiðbeiningum hafi ekki verið fylgt þegar smit kom upp um borð í Júlíusi Geirmundssyni

Samtök fyrirtækja í Sjávarútvegi hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að leiðbeiningum sem gefnar voru út í vor vegna Covid-19 hafi ekki veið fylgt þegar smit kom upp í togaranum Júlíusi Geirmundssyni á dögunum. Leiðbeiningarnar voru samdar í vor af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og stéttarfélögum sjómanna þegar fyrsta bylgja faraldursins stóð sem hæst. Fram kemur í tilkynningu SFS um málið að um borð í skipum sé nánd mikil á milli manna og veikindi geti hæglega borist út, eins og því miður sýndi sig í þessu tilfelli.

Af þeim sökum telji SFS að sérstaklega hafi verið mikilvægt að vera með skýrar leiðbeiningar um bestu framkvæmd í þessum aðstæðum. Leiðbeiningarnar voru samdar sameiginlega af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og stéttarfélögum sjómanna í vor, í góðu samstarfi við embætti landlæknis, og sendar á útgerðir.

Í tilfelli Júlíusar Geirmundssonar var ekki farið eftir þessum leiðbeiningum, segir SFS og að samkvæmt þeim hefði átt að hafa samband við Landhelgisgæsluna þegar veikinda varð vart og þar með hefði málið verið komið í réttan farveg. Á þessum misbresti verða skipstjóri og útgerð skipsins að axla ábyrgð. 

Mikilvægt er að samskipti útgerða og sjómanna séu góð, sérstaklega þegar í hlut eiga frystiskip sem eru lengi á sjó. Þetta mál hefur skaðað þessi samskipti. SFS hyggjast ræða málið við forystumenn stéttarfélaga sjómanna á næstu dögum. Mikilvægt er að greina hvað fór úrskeiðis og læra af því. Raunir þessara skipverja á Júlíusi Geirmundssyni mega ekki endurtaka sig á íslenskum skipum”

Athugasemdir

athugasemdir

Deila